Sterkt jafntefli hjá KA í Keflavík

Fótbolti
Sterkt jafntefli hjá KA í Keflavík
Varnarlínan hélt í gær (mynd: Sævar Geir)

KA mætti Keflavík í gærkveldi á Nettó vellinum suður með sjó. Leikurinn var mjög mikilvægur fyrir bæði lið en fyrir leikinn var KA í efsta sæti deildarinnar á meðan Keflavík var í því þriðja. 

Keflavík 0 - 0 KA

Lið KA:

Rajko, Baldvin, Guðmann, Davíð Rúnar, Hrannar, Almarr, Hallgrímur Mar, Aleksandar, Archie, Ásgeir og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Dagur, Halldór Hermann, Juraj, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Kristján Freyr og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Archie út - Halldór Hermann inn (´77)
Ásgeir út - Juraj inn (´91)

Það var nokkuð ljóst að hvorugt liðið vildi tapa leiknum og voru bæði lið frekar varnarsinnuð. Heimamenn voru þó aðeins líklegri enda þurftu þeir öll stigin úr leiknum ef þeir ætluðu sér upp í efstu deild.

Fá færi litu dagsins ljós en lið KA pirraði sig þó nokkuð á dómara leiksins sem verður að viðurkennast að hefur átt betri dag. Lið KA átti að fá vítaspyrnu í leiknum er boltinn fór í hönd eins leikmanns heimamanna en ekkert var dæmt.

Úr varð að liðin skildu jöfn 0-0 í ansi döprum knattspyrnuleik sem verður þó að teljast mjög góð úrslit fyrir okkar menn. Nú þegar aðeins 6 leikir eru eftir í deildinni hefur liðið 7 stiga forskot á Keflvíkinga í 3. sætinu en Grindvíkingar fóru upp í toppsætið með sigri í gær. Það skiptir hinsvegar ekki öllu máli hvort við lendum í 1. eða 2. sæti deildarinnar, aðal málið er auðvitað að koma sér upp í deild þeirra bestu.

KA-maður leiksins: Guðmann Þórisson (Guðmann sýndi enn einn stjörnuleikinn í hjarta varnarinnar og kastaði sér ófáum sinnum fyrir tilraunir Keflvíkinga. Það er erfitt að skora á okkur þegar Guðmann er í sínum ham.)

Þrátt fyrir lítið skemmtanagildi leiksins þá fjölmenntu stuðningsmenn KA á leikinn og var mjög gaman að sjá hve vel var stutt við liðið. Þrátt fyrir að vera á útivelli þá yfirgnæfðu söngvar KA manna heimamenn og hreinlega áttu stúkuna, alveg frábært hreint út sagt!

Næsti leikur KA er heimaleikur gegn Leikni R á sunnudaginn klukkan 16:00. Sá leikur er ekki síður mikilvægur enda er Leiknisliðið í 4. sætinu og er þetta algjör úrslitaleikur fyrir þá upp á hvort þeir ætli sér að vera með í baráttunni um sæti í efstu deild. Á sama tíma getur KA-liðið komið sér í lykilstöðu í þeirri baráttu þegar einungis 5 leikir yrðu eftir.

 FÉLAGLUJTMÖRKNETSTIG
1 Grindavík 16 10 4 2 40  -  14 26 34
2 KA 16 10 3 3 26  -  11 15 33
3 Keflavík 16 6 8 2 24  -  17 7 26
4 Leiknir R. 16 7 3 6 16  -  20 -4 24
5 Þór 16 7 2 7 21  -  25 -4 23
6 Selfoss 16 5 6 5 22  -  21 1 21
7 Haukar 16 6 2 8 24  -  30 -6 20
8 Fram 16 5 4 7 19  -  25 -6 19
9 HK 16 4 6 6 22  -  28 -6 18
10 Fjarðabyggð 16 3 7 6 22  -  24 -2 16
11 Huginn 16 4 4 8 13  -  21 -8 16
12 Leiknir F. 16 3 3 10 19  -  32 -13 12

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband