Stjarnan sló stelpurnar úr bikarnum

Fótbolti
Stjarnan sló stelpurnar úr bikarnum
Sandra Mayor skoraði í kvöld en það dugði ekki

Þór/KA mætti í Garðabæinn í kvöld í stórleik 8-umferðar í Borgunarbikarnum þegar liðið sótti Íslandsmeistara Stjörnunnar heim. Stjörnustúlkur komu fram hefndum og slógu þar með okkar lið út.

Stjarnan 3 - 2 Þór/KA
1-0 Kristrún Kristjánsdóttir ('3)
1-1 Sandra Mayor ('10)
1-2 Sandra María Jessen ('29)
2-2 Agla María Albertsdóttir ('50)
3-2 Harpa Þorsteinsdóttir ('85)

Það mátti búast við svakalegum leik enda bæði lið gríðarlega sterk og eins og alltaf í bikarnum var allt undir. Lið Stjörnunnar byrjaði betur og komst yfir strax á 3. mínútu þegar Kristrún Kristjánsdóttir skoraði beint úr hornspyrnu fyrir heimastúlkur. Staðan strax orðin 1-0 rétt eins og í fyrri leik liðanna í sumar.

En eins og í síðasta leik kom lið Þórs/KA sterkt til baka og Sandra Mayor jafnaði á 10. mínútu þegar hún skrúfaði boltann laglega í netið úr aukaspyrnu alveg upp við hliðarlínu. Bæði lið búin að skora strax og ekki voru mörkin ósvipuð.

Það var mikil barátta í leiknum og alveg ljóst að hér yrði hart barist. Það var svo á 29. mínútu að Sandra María Jessen skoraði eftir góða sendingu frá Andreu Mist Pálsdóttur. Stelpurnar nýttu sér vel mistök í vörn Stjörnunnar og Sandra María í sínum landsliðsklassa skoraði að sjálfsögðu!

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru heimastúlkur sterkari aðilinn og fengu nokkur úrvalsfæri á að jafna metin en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir í marki Þórs/KA lokaði markinu af stakri snilld. Hálfleikstölur 1-2 og minnti leikurinn mjög á fyrri viðureign liðanna í sumar.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og hvernig þeim fyrri lauk. Stjörnustúlkur hættulegar og markið lá í loftinu. Það kom því ekki á óvart þegar jöfnunarmarkið kom á 50. mínútu. Eftir töluverða pressu barst boltinn fyrir markið þar sem Agla María Albertsdóttir beið og skoraði af stuttu færi.

Okkar stúlkum gekk áfram erfiðlega að skapa sér færi og sterkt lið Stjörnunnar hélt áfram að þjarma að okkar marki. Hvort að einhver þreyta sé komin í liðið eftir mikla leikjatörn að undanförnu þar sem álagið hefur verið mikið á fáum leikmönnum.

Sigurmark Stjörnunnar kom svo seint í leiknum en Bianca Elissa lokaði á hættulega sókn heimastúlkna með tæklingu en boltinn fór rakleiðis á Hörpu Þorsteinsdóttur sem smellti boltanum í netið. Okkar stúlkur reyndu hvað þær gátu til að finna jöfnunarmarkið en það gekk ekki og lokatölur 3-2.

Bikardraumurinn er því úti að sinni og fyrsta tap sumarsins staðreynd. Leikurinn í kvöld var erfiður og má segja að sigur Stjörnunnar hafi verið sanngjarn. Nú eru framundan tveir erfiðir útileikir í deildinni gegn Val og Breiðablik en svo kemur EM pása í deildinni. Nú þurfa stelpurnar að keyra sig gjörsamlega út í þessum leikjum og halda þessari góðu stöðu sem þær hafa komið sér í.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband