Stórleikur í bikarnum hjá Þór/KA

Fótbolti
Stórleikur í bikarnum hjá Þór/KA
Sæti í undanúrslitum er í húfi! (mynd: Tomasz)

Kvennalið Þórs/KA hefur spilað frábærlega það sem af er sumri og hefur unnið alla 10 leiki sína. Á morgun, föstudag, klukkan 18:00 mætir liðið ríkjandi Íslandsmeisturum Stjörnunnar á útivelli í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins.

Í síðustu umferð ruddi Þór/KA út Breiðablik sem eru ríkjandi Bikarmeistarar en leikurinn var einnig á útivelli. Leikurinn á morgun er klárlega stórleikur umferðarinnar og er ljóst að stelpurnar þurfa að fara erfiða leið ef að þær hyggjast lyfta Bikarmeistaratitlinum í fyrsta skiptið.

Fyrr í sumar mættust Þór/KA og Stjarnan einmitt á heimavelli Stjörnunnar og þá vannst góður 1-3 útisigur eftir að Stjörnustúlkur höfðu skorað strax í upphafi. Helstu atvik úr þeim leik má sjá hér fyrir neðan:

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar til sigurs. Sumarið hefur verið frábært til þessa og þær ætla sér svo sannarlega að halda þessu góða gengi áfram. Fyrir ykkur sem ekki komist á völlinn þá verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport þannig að það er um að gera að fylgjast vel með gangi mála. Áfram Þór/KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband