Þór/KA í úrslit Lengjubikarsins

Fótbolti

Íslandsmeistarar Þór/KA eru komnir í úrslit Lengjubikarsins eftir 1-0 sigur á Breiðablik í kvöld. Bæði lið eru ógnarsterk og er búist við miklu af þeim í sumar enda voru þetta tvö efstu liðin í Pepsi deildinni á síðasta tímabili.

Breiðablik 0-1 Þór/KA 
0-1 Sandra Stephany Mayor, víti ('63)

Liðin gerðu 1-1 jafntefli í riðlakeppninni og var leikurinn í kvöld einnig spennuþrunginn. Blikastúlkur fengu vítaspyrnu í fyrri hálfleik en Helena Jónsdóttir í marki Þórs/KA gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna glæsilega. Vítið var eðlilega besta færi fyrri hálfleiks og var staðan 0-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Það var svo eftir rúmt kortér í síðari hálfleiks að okkar stúlkur fengu vítaspyrnu og Borgarstjórinn sjálfur, hún Sandra Mayor, gerði engin mistök á punktinum og skoraði af öryggi. Breiðablik reyndi að koma til baka en Þór/KA er þekkt fyrir góða varnarvinnu og gáfu stelpurnar fá færi á sér og sigldu 0-1 sigri í höfn.

Stelpurnar eru því komnar alla leið í sjálfan úrslitaleikinn og mæta þar annaðhvort Stjörnunni eða Val en þau mætast á sunnudag í hinum undanúrslitaleiknum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband