Þór/KA lagði KR örugglega að velli

Fótbolti
Þór/KA lagði KR örugglega að velli
Enn heldur Bryndís hreinu og Þór/KA í lykilstöðu

Kvennalið Þórs/KA vann í kvöld góðan 3-0 sigur á KR á Þórsvelli. Sigurinn kemur liðinu í enn betri stöðu á toppi deildarinnar þegar einungis fjórar umferðir eru eftir af sumrinu.

Þór/KA 3 - 0 KR
1-0 Sandra Mayor ('4)
2-0 Hulda Ósk Jónsdóttir ('49)
3-0 Bianca Elissa ('86)

Leikurinn fór fjörlega af stað og opnunarmark leiksins kom strax á 4. mínútu þegar Borgarstjórinn, Sandra Mayor, skoraði gott mark eftir góða sendingu frá Nataliu Gomez. Næstu mínútur réðu okkar stelpur lögum og lofum í leiknum. Anna Rakel Pétursdóttir átti meðal annars þrumuskot í slá en inn vildi boltinn ekki.

Gestirnir komu sér loks betur inn í leikinn og reyndu hvað þær gátu til að jafna metin en vörn Þórs/KA sem hefur verið öflug í sumar náði að brjóta sóknarlotur gestanna niður og hálfleikstölur voru 1-0.

Síðari hálfleikur hófst rétt eins og sá fyrri og var ljóst að okkar lið ætlaði sér að ganga frá leiknum sem fyrst og það gekk upp því Hulda Ósk Jónsdóttir tvöfaldaði forystuna eftir fjórar mínútur með skallamarki eftir fyrirgjöf frá Önnu Rakel.

Eftir markið var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda, stelpurnar þjörmuðu að KR-ingum var í raun ótrúlegt að ekki bættist við forskotið. Stíflan brast á endanum og á 86. mínútu skoraði Bianca Elissa gott mark með skalla eftir aukaspyrnu.

Frábær þrjú stig í hús og á sama tíma gerði ÍBV jafntefli í Hafnarfirði sem þýðir að nú munar 10 stigum á Þór/KA og ÍBV þegar einungis 12 stig eru eftir í pottinum. Breiðablik getur þó minnkað forskotið aftur niður í 8 stig með sigri á Haukum á morgun en það er ljóst að okkar lið er komið í frábæra stöðu þegar stutt er eftir.

Næsti leikur er útileikur gegn ÍBV á sunnudaginn sem verður virkilega erfiður. Sigur þar myndi fara langleiðina með að tryggja Íslandsmeistaratitilinn og ef ég þekki okkar stelpur rétt þá eru þær að fara í þann leik til að vinna hann.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband