Þór/KA tapaði og bikardraumurinn úti

Fótbolti
Þór/KA tapaði og bikardraumurinn úti
Bikardraumurinn er úti eftir baráttuleik gegn ÍBV

Kvennalið Þórs/KA tók á móti ÍBV í undanúrslitum Borgunarbikarsins í dag. Þór/KA hafði lagt ÍBV að velli fyrr í vikunni í Pepsi deildinni og var vonast til að stelpurnar gætu endurtekið leikinn í dag.

Þór/KA 0 - 1 ÍBV
0-1 Rebekah Bass ('112)

Lítið var um færi í fyrri hálfleiknum og var ljóst að bæði lið ætluðu að verjast vel og reyna að halda marki sínu hreinu. Ekki bætti úr skák að það hellirigndi fyrir leik og í upphafi þannig að leikmenn áttu á stundum í erfiðleikum með að ná upp spili.

En það voru gestirnir sem sköpuðu sér fleiri færi og voru strax blikur á lofti að þetta yrði erfitt í dag. Síðari hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri og var ljóst að það lið sem myndi ná að skora fyrsta mark leiksins myndi líklega fara áfram.

Ekkert var skorað í venjulegum leiktíma en Anna Rakel Pétursdóttir fékk hættulegasta færi Þórs/KA skömmu fyrir leikslok en hún skaut himinhátt yfir, framlenging niðurstaðan. Áður hafði Sandra María Jessen átt þrumuskot í slánna.

Í framlengingunni héldu gestirnir áfram að vera hættulegri og voru ansi líklegar þegar Cloe Lacasse komst í gegn en skaut í stöngina og út. Það var orðið öllum ljóst að skiptinga var þörf hjá Þór/KA enda voru nokkrir leikmenn búnir að gefa allt í leikinn. Hinsvegar ákvað Jóhann Kristinn þjálfari að bíða með þær en hann hafði skipt Láru Einarsdóttur út í hálfleik fyrir Zanettu Wyne.

Sú ákvörðun að skipta ekki kom í bakið á liðinu þegar Cloe Lacasse sem hafði verið stórhættuleg brunaði upp kantinn og lagði boltann á Rebekuh Bass sem að skoraði. Loksins komu skiptingarnar tvær eftir markið þegar Katla Ósk Rakelardóttir og Margrét Árnadóttir komu inná en þetta var því miður of seint og 0-1 tap raunin.

Bikardraumurinn er því úti og lið Þórs/KA þarf því að einbeita sér að Pepsi deildinni þar sem liðið situr í 4. sæti aðeins 5 stigum frá toppsætinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband