Þór/KA - Wolfsburg er á morgun!

Fótbolti
Þór/KA - Wolfsburg er á morgun!
Algjör veisla framundan! (mynd: Þórir Tryggva)

Einn stærsti knattspyrnuleikur sem hefur farið fram á Akureyri er á morgun, miðvikudag, þegar Íslandsmeistarar Þórs/KA taka á móti Þýskalandsmeisturum Wolfsburg. Leikurinn hefst klukkan 16:30 og hvetjum við alla sem geta til að mæta og styðja stelpurnar í þessum magnaða leik. Alls verður pláss fyrir um 3.000 manns á vellinum þannig að það ættu flestir að komast fyrir.

Þór/KA varð eins og frægt er orðið Íslandsmeistari á síðustu leiktíð og vann sér þar með rétt til að leika í Meistaradeildinni í ár. Fyrr í sumar tryggðu stelpurnar sér sæti í 32-liða úrslitum keppninnar með því að komast uppúr riðlakeppninni en þar lék liðið gegn Linfield, Wexford og Ajax. Hér rifjum við upp leið liðsins að Íslandsmeistaratitlinum í fyrra:

Wolfsburg er eitt af allra bestu liðum heims í kvennaknattspyrnu en Wolfsburg er einmitt ríkjandi Þýskalandsmeistari sem og Bikarmeistari auk þess sem liðið lék til úrslita í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð þar sem liðið tapaði í framlengingu.

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði er í lykilhlutverki hjá Wolfsburg auk þess að hafa Pernille Harder sem var nýlega kjörin besti leikmaður heims 2017-2018 af UEFA.

Það er ljóst að leikurinn á morgun verður algjör veisla og mikil upplifun. Það er því um að gera að drífa sig á Þórsvöll og styðja okkar flotta lið. Það má búast við mikilli örtröð þannig að það er eina vitið að mæta tímanlega bæði uppá bílastæði sem og miðasölu. Hlökkum til að sjá ykkur á morgun og áfram Þór/KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband