Ársskýrsla KA árið 2009

Aðalfundur KA 23. mars 2010

Ársskýrsla Knattspyrnufélags Akureyrar fyrir árið 2009 (starfsárið 2009-2010)

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Á aðalfundi KA þann 20. apríl 2009 var Stefán Gunnlaugsson endurkjörinn formaður KA en auk hans voru kjörin í stjórn:
  Tryggvi Gunnarsson sem var varaformaður
  Guðmundur B. Guðmundsson sem var gjaldkeri
  Hrefna G. Torfadóttir sem var ritari
  Bjarni Bjarnason sem var meðstjórnandi
  Varamaður var Ragnheiður Júlíusdóttir

Formenn deilda sátu einnig í stjórn en þeir voru:
  Sigurður Arnar Ólafsson, fyrir blakdeild
  Erlingur Kristjánsson, fyrir handknattleiksdeild
  Jón Óðinn Waage, fyrir júdódeild
  Bjarni Áskelsson, fyrir knattspyrnudeild

Þetta starfsár einkenndist, eins og árið á undan, nokkuð af því efnahagsástandi sem við búum við. Mikil vinna var lögð í sparnaðaráætlanir, vel var skoðað hvar hægt væri að minnka kostnað og breyta til batnaðar. Gunnar framkvæmdastjóri, Guðmundur gjaldkeri og Stefán formaður eiga þakkir skilda fyrir þá miklu vinnu sem þeir lögðu í það verkefni.

Síðastliðið sumar var leikjaskóli starfræktur enn á ný. Hann var með nokkru öðru sniði en áður, einungis var boðið upp á skólann hálfan daginn. KA ákvað að halda gjöldum í lágmarki og tókst það vegna veglegs styrks frá Samherja og var aðsókn að skólanum mjög góð. KA þakkar Samherja fyrir velvild þeirra í garð félagsins.

Framkvæmdir í kjallara voru á fullu þetta starfsár og sér nú fram á endann á þeim. Þar er að rísa hin besta heilsurækt og að öðrum ólöstuðum verður að minnast hér á þátt Tryggva Gunnarssonar sem hefur verið vakinn og sofinn yfir þessu verkefni og lagt ómældar stundir í það, enda ber heilsuræktin vinnuheitið „Tryggvastofa”. Einnig ber að þakka Bjarna Bjarnasyni fyrir hans mikla þátt. Deildir félagsins sem og ýmsir félagsmenn hafa lagt hönd á plóginn og eru þeim hér færðar þakkir fyrir. Meiningin er að heilsuræktin verði opnuð í byrjun maí og nú þarf að finna gott nafn því heilsurækt er kannski svolítið villandi nafn.

Gildi félagsstarfs og samheldni kemur vel í ljós þegar verið er að vinna að svona verkefni sem einungis er félaginu kleift ef margir sjálfboðaliðar leggja hönd á plóginn. Það hefur verið eitt af aðalsmerkjum þessa félags að í hvert sinn sem lagt er í verkefni, hvort sem það er að hengja tjöld upp niðri í sal eða moka steypuklumpum út úr kjallaranum, þá eru allir boðnir og búnir að leggja sitt af mörkum. Við ættum að gæta þess að taka það ekki sem sjálfsagðan hlut, heldur virða það og meta.

Þjálfarafélag var stofnað í desember að frumkvæði Sævars Árnasonar. Í stjórn eru Jón Óðinn Waage, Jóhannes Bjarnason og Pétur Ólafsson. Sævar Árnason mun sjá um fræðslumál.

Þjálfarafélagið, ásamt Gunnari framkvæmdastjóra, hefur þegar staðið fyrir skyndihjálparnámskeiði fyrir starfsfólk hússins og þjálfara félagsins. Fleiri námskeið eru fyrirhuguð. Þetta er mjög gott framtak og ekki spurning að það er félaginu til hagsbóta. Ég tel það gott fyrir félagið að þjálfarar hinna ýmsu deilda séu samankomnir í eitt félag innan KA og trúi því að samstarf þeirri muni leiða af sér margt gott.

20 ára Íslandsmeistarar í blaki og 20 ára Íslandsmeistarar í knattspyrnu heimsóttu félagið til að halda upp á þessi tímamót, knattspyrnumenn í ágúst sl. og blakið í nóvember. Heimsókn beggja hópa var, að sögn, mjög ánægjuleg.

Nefnd á vegum aðalstjórnar hefur unnið með nefnd á vegum bæjarins (íþróttaráðs) að skipulagningu og uppbyggingu Akureyrarvallar og hefur það samstarf gengið mjög vel. KA vill þakka Akureyrarbæ og íþróttaráði fyrir gott samstarf.

Í nóvember sl. tilkynni Samherji um veglegan styrk til barna og unglingastarfs. KA vill ítreka þakkir sínar til Samherja fyrir velvild þeirra í garð félagsins og ómetanlega styrki.

Höfðinglegur styrkur Samherja á sl. ári til íþrótta barna- og unglinga varð til þess að hægt var að bjóða 8. flokk í knattspyrnu að æfa frítt og engin æfingagjöld voru heldur hjá yngri flokkum í júdo.
Ferðakostnaður barna- og unglinga allra deilda lækkaði og varð til þess að ekki kom til þess að iðkendum hjá deildunum fækkaði eins og reiknað hafði verið með vegna kreppunnar, heldur fjölgaði þeim börnum og unglingum sem stunduðu einhverja íþrótt hjá félaginu.

Í janúar sl. var haldið upp á 82. ára afmæli KA með veglegu Hnallþóruboði. Annáll ársins var fluttur, minnst var látinna félaga, séra Svavar Jónsson flutti tölu og síðast en ekki síst var kynntur íþróttamaður KA árið 2009. Tilnefndir voru:

Frá blakdeild: Auður Anna Jónsdóttir og  Piotr Slawomir Kempisty
Frá handknattleiksdeild: Martha Hermannsdóttir og Arna Valgerður Erlingsdóttir
Frá júdódeild: Helga Hansdóttir
Frá knattspyrnudeild: Haukur Heiðar Hauksson

Íþróttamaður KA að þessu sinni varð Piotr Slawomir Kempisty, í öðru sæti varð Haukur Heiðar Hauksson og í þriðja sæti varð Helga Hansdóttir.

KA fékk höfðinglega gjöf í tilefni afmælisins en það var hjartastuðtæki sem ónefndur, góður KA maður gaf. KA færir honum þakkir sínar.

Á síðastliðnu ári létust nokkrir mætir KA menn sem allir eiga það sammerkt að hafa unnið mikið starf fyrir félagið. Sumir þeirra sátu í stjórnum deilda, þeir kepptu fyrir félagið í ýmsum greinum og studdu það fjárhagslega á ýmsan máta.

Þeir eru:
  Sigbjörn Gunnarsson sem lést í febrúar 2009, Ragnar Sigtryggson sem lést í mars 2009
  Gísli Bjarnason sem lést í maí 2009
  Sverrir Leósson sem lést í júní 2009
  Svavar Ottesen sem lést í júlí 2009.
  Einnig lést Gunnar Jakobsson í janúar sl.

Þessara mætu KA manna var minnst á afmæli KA. (smá þögn)

Ég vil þakka Gunnari framkvæmdastjóra fyrir hans góða og mikla starf fyrir félagið. Það var félaginu mikil fengur að fá Gunnar aftur til starfa. Ég vil einnig þakka öðru starfsfólki félagsins fyrir þeirra störf. Gott starfsfólk er undirstaða þess að starfsemi eins og fram fer hér hjá okkur gangi vel.

Ekki má gleyma öllum sjálfboðaliðunum í stjórnum deilda og ráða og öðrum sem koma að starfsemi deilda. Þeim færi ég líka þakkir því án þeirra væri engin starfsemi. Það má aldrei vanmeta þann tíma og þá orku sem sjálfboðaliðar félagsins leggja af mörkum til að láta starfsemina ganga. Einnig vil ég þakka þjálfurum allra deilda. Góðir þjálfarar, eins og við höfum hér, eru ein meginástæða þess að iðkendur eru hér allt frá því að þeir eru 5 eða 6 ára og upp að fullorðinsaldri og lengur.

Hér verður ekki fjallað um árangur flokka né rekstur deilda og vísast í ársskýrslur hverrar deildar. Þó má ég til með minnast á það að rekstur allra deilda gekk vel og er kraftmikið starf í þeim öllum.

Að lokum vil ég enn á ný undirstrika mikilvægi félagsstarfs á þessum umbrotatímum. Höldum utan um börnin okkar og unglingana okkar. Reynum að halda þeim sem lengst í íþrótta- og félagsstarfi. Það er þeim til hagsbóta. Við fullorðna fólkið eigum að leggja hönd á plóginn nú sem aldrei fyrr til að byggja upp heilbrigt íþrótta- og félagsstarf fyrir unga fólkið okkar.

Horfum með jákvæðum huga framávið og sameinumst um að efla enn félagið okkar og starfsemina þar.

Takk fyrir.
  fh. aðalstjórnar
  Hrefna G. Torfadóttir, ritari

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband