Um Tennis- og badmintondeild

Spaðadeild KA heldur úti tennis- og badmintonæfingum fyrir börn og unglinga. Báðar greinarnar veita góða alhliða hreyfingu sem auðvelt er að læra og eru íþróttagreinar sem hentar öllum. Tennis og badminton snúast um tækni, útsjónarsemi, snerpu og úthald.

Allar nánari upplýsingar um Spaðadeild má finna hér á síðu KA, á Facebook undir Spaðadeild KA. Einnig er hægt að senda tölvupóst á spadadeild@ka.is til að fá frekari upplýsingar.

Á aðalfundi KA í mars 2012 lá fyrir formleg ósk frá Tennis- og badmintonfélagi Akureyrar um aðild að KA. Aðalfundurinn samþykkti án mótatkvæða aðildina og því hefur ný deild, tennis og badmintondeild tekið til starfa innan KA.

Þann 15. mars sl. barst KA eftirfarandi bréf frá TBA:

Beiðni um aðild að Knattspyrnufélagi Akureyrar (KA)

Samkvæmt ákvörðun aðalfundar Tennis- og badmintonfélags Akureyrar óskar félagið eftir því við stjórn KA að TBA fái aðild að KA og verði ein af deildum félagsins.

Fyrir hönd stjórnar TBA,
með vinsemd og virðingu,

Kristján Már Magnússon
formaður

Aðalstjórn KA tók jákvætt í erindið á fundi sínum 22. mars sl. og aðalfundur staðfesti síðan endanlega aðild TBA að KA.

KA býður félagsmenn í TBA hjartanlega velkomna í KA og er þess vænst að þær greinar sem verið hafa innan vébanda TBA muni eflast og dafna við það að verða hluti af Knattspyrnufélagi Akureyrar.

Tennis- og badmintonfélag Akureyrar var formlega stofnað árið 1973 en badminton hefur verið stundað á Akureyri frá árinu 1944 þegar Íþróttahúsið við Laugargötu var tekið í notkun.

Markmið félagsins er að iðka tennis og badminton og glæða áhuga á þeim íþróttagreinum á Akureyri. Í dag er þó engin aðstaða á Akureyri til að iðka tennis og því hefur félagið eingöngu einbeitt sér að badmintoníþróttinni síðastliðin ár.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is