KA sigur á Þrótti Nes í hörkuleik

Blak
KA sigur á Þrótti Nes í hörkuleik
Mynd Þórir Tryggvason

Það er óhætt að segja að það hafi verið háspennuleikur í karlablakinu í dag þegar KA tók á móti Þrótti Neskaupstað. Leikmenn Þróttar komu vel stemdir til leiks og leiddu fyrstu hrinuna lengst af. KA náði þó að snúa leiknum og undir lokin var staðan 24-23 fyrir KA en Þróttarar gáfust ekki upp og skoruðu þrjú stig í röð og unnu þar með hrinuna 24-26.

Hrina tvö byrjaði áfram með jafnræði liðanna en í stöðunni 10-10 tók KA liðið leikinn algjörlega  yfir og kláraði hrinuna með stæl, 25-13.

Þriðja hrinan spilaðist með svipuðum hætti og lauk með býsna öruggum sigri KA 25-19.

Það var því ljóst að Þróttar menn þyrftu að gefa allt sitt í fjórðu hrinuna og það gerðu þeir svo sannarlega. Þeir leiddu hana nánast frá upphafi og allt upp í stöðuna 21-23 og eiginlega með pálmann í höndunum. En KA liðið sýndi stáltaugar í framhaldinu og skoraði fjögur stig í röð og vann þar með hrinuna 25-23 og leikinn 3-1.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstu KA manna með 22 stig, Alexander Arnar Þórisson með 17, Mason Casner með 13, Stefano Nassini Hidalgo með 12 og Sigþór Helgason með 4 sig.

Hjá Þrótti var Miguel Angel Ramos Melero stigahæstur með 17 stig og Þórarinn Örn Jónsson með 10 stig.

KA fékk því 3 stig fyrir leikinn og situr á toppi deildarinnar. Þróttur Nes situr áfram á botninum án stiga en sýndi svo sannarlega að það er heilmikið spunnið í liðið og ljóst að þeir eiga eftir að sækja sín stig í deildinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is