KA varði bikartitilinn í blaki karla!

Blak
KA varði bikartitilinn í blaki karla!
9. Bikarmeistaratitill KA í blaki karla staðreynd!

Karlalið KA í blaki sem er handhafi allra bikara í dag mættu Álftanesi í úrslitaleik Kjörísbikarsins og reyndi þar að verja Bikarmeistaratitil sinn. Mikill stígandi hefur verið í leik Álftnesinga í vetur og unnu þeir góðan sigur á HK í undanúrslitum og klárt að okkar lið þyrfti að hafa fyrir hlutunum í dag.

Álftnesingar hófu leikinn af krafti og komust í 1-4 og síðar 7-12. Þá loks kviknaði á okkar liði og strákarnir jöfnuðu í 12-12 eftir frábærar uppgjafi hjá Stefano Nassini. Eftir það var leikurinn hnífjafn og spennandi og mátti vart sjá hvort liðið myndi vinna fyrstu hrinuna.

Staðan var 22-22 er lítið var eftir en Filip var þá góður að finna Miguel Mateo á kantinum sem gerði mikilvæg stig og KA vann því fyrstu hrinuna 25-22 og staðan orðin 1-0.

Aftur voru það Álftnesingar sem hófu hrinuna betur og komust þeir í 0-3, KA svaraði með næstu fjórum stigum en eftir það þurftu okkar menn að elta nær alla hrinuna. Loks tókst að jafna aftur í 20-20. Enn var jafnt í 22-22 þegar Vigfús Jónbergsson kom sterkur inn í uppgjöf og KA vann í kjölfarið 25-23 sigur. Staðan orðin 2-0 og virtist vera að þegar virkilega þyrfti á að halda gæti lítið stoppað okkar lið.

Það kom svo að því að KA myndi byrja betur og má í raun segja að sigur KA hafi allan tímann legið í loftinu. Á endanum vannst 25-17 sigur og leikurinn því unnin 3-0 þó vissulega hafi okkar lið þurft að hafa vel fyrir hlutunum þá sérstaklega í fyrstu tveimur hrinunum.

En styrkurinn og breiddin í KA liðinu er einfaldlega það mikill að það eru ekki mörg lið sem virðast geta staðið liðinu snúning. Strákarnir vörðu þar með Bikarmeistaratitilinn og KA því Bikarmeistari í blaki karla í níunda skiptið í sögunni.

Miguel Mateo var valinn leikmaður leiksins en hann átti skínandi frammistöðu og gerði 25 stig. Næstir komu þeir Stefano Nassini með 11 stig, Mason Casner með 10 og Alexander Arnar Þórisson með 6 stig. Filip Pawel átti eins og svo oft áður flottan leik í uppspilinu en hann blómstrar með jafn öfluga sóknarmenn sér við hlið eins og KA hefur í dag.

Við óskum strákunum til hamingju með titilinn og hlökkum rétt eins og með stelpurnar til að sjá þá berjast um Íslandsmeistaratitilinn er úrslitakeppnin hefst á næstunni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is