Frábær sigur KA á Álftnesingum

Blak
Frábær sigur KA á Álftnesingum
Frábær 3 stig í hús! (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti Álftanesi í gríðarlega mikilvægum leik í Mizunodeild karla í blaki í KA-Heimilinu í dag. Fyrir leikinn var KA í 4.-5. sæti með 12 stig en Álftanes var með 18 stig í 3. sætinu. Aðeins efstu fjögur liðin fara í úrslitakeppnina og klárt að KA liðið þarf á öllum þeim stigum sem í boði eru til að tryggja sæti sitt þar.

Liðin skiptust á að leiða í upphafi fyrstu hrinu og ljóst að bæði lið voru mætt til að sækja sigurinn. Gestirnir gerðu færri mistö og náðu nokkrum stigum í röð sem kom þeim fimm stigum yfir í stöðunni 9-14. Eftir það náði KA liðið í þó nokkur skipti að minnka muninn í tvö stig en komst aldrei nær og Álftnesingar fóru á endanum með 22-25 sigur í hrinunni.

Þrátt fyrir tapið sást að okkar lið var að komast betur og betur í gang auk þess sem Miguel Mateo sem virtist afar þjáður í upphafi leiks virtist ná að yfirstíga meiðslin og fór heldur betur að láta til sín taka. Gestirnir að vísu byrjuðu næstu hrinu mun betur og komust í 4-10 en þá svöruðu strákarnir vel og þeir sneru taflinu við. Að lokum vannst góður 25-21 sigur og staðan því orðin 1-1.

Jafnt var í upphafi þriðju hrinu en svo keyrðu strákarnir yfir gestina og komust mest níu stigum yfir í stöðunni 19-10. Álftnesingar náðu að laga stöðuna en strákarnir voru aldrei að fara að klúðra þessari góðu stöðu og unnu 25-21 sigur sem kom þeim í 2-1 og kjörstöðu á að sækja öll stigin í leiknum.

Spennan var mikil í upphafi fjórðu hrinu enda allt undir, jafnt var á öllum tölum upp í 10-10 en í kjölfarið komst KA í 18-12 og eftir það litu strákarnir aldrei um öxl. Þeir unnu hrinuna 25-18 og unnu leikinn því 3-1 samtals. Þrjú risastig því í hús hjá liðinu sem stendur nú eitt í 4. sætinu með 15 stig og er aðeins þremur stigum frá Álftanesi í því þriðja.

Næsti leikur er einnig ansi mikilvægur en hann er á sunnudaginn um næstu helgi og þá mætir Afturelding norður. Afturelding er þremur stigum fyrir aftan okkar lið og það er ekki nokkur spurning að það yrðu mikil vonbrigði fyrir þá ef þeir missa af sæti í úrslitakeppninni. Stigin þrjú sem verða í boði næstu helgi geta sagt ansi mikið um lokastöðu liðanna og verður ansi gaman að sjá hvernig sá leikur mun fara.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur í liði KA í dag með 28 stig og var frábært að sjá hann leggja sig allan í leikinn þrátt fyrir meiðsli. Alexander Arnar Þórisson gerði 18 stig, Gunnar Pálmi Hannesson 7, Gísli Marteinn Baldvinsson 5, Filip Pawel Szewczyk 3, Benedikt Rúnar Valtýsson 3 og Vigfús Jónbergsson 1.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is