Góður sigur KA á Álftnesingum

Blak
Góður sigur KA á Álftnesingum
Mateo er mættur aftur! (mynd: Þórir Tryggva)

Karlalið KA vann í gær góðan 3-1 sigur á Álftanesi í fyrsta heimaleik vetrarins. Strákarnir voru stigalausir eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum deildarinnar fyrir austan um síðustu helgi og voru staðráðnir í að sækja sín fyrstu stig.

Alexander Arnar Þórisson var fjarverandi en hann æfir þessa dagana með TV Rottenburg í Þýskalandi en í staðinn var Miguel Mateo Castrillo mættur aftur eftir smá frí. Leikurinn fór fjörlega af stað og var jafnt á flestum tölum í upphafi hrinunnar. Gestirnir náðu svo góðum kafla og leiddu 14-20 og allt útlit fyrir að þeir myndu taka fyrstu hrinuna.

KA liðið svaraði hinsvegar fyrir sig og jafnaði metin í 21-21 og í kjölfarið var jafnt í 22-22, 23-23 og 24-24. En KA liðið náði að knýja fram sigur og vann 26-24 og tók þar með forystuna 1-0.

Önnur hrina hófst alveg eins og sú fyrri, jafnt á nánast öllum tölum áður en gestirnir komust í 16-19. Í þetta skiptið tókst Álftnesingum hinsvegar að gefa í og klára hrinuna 18-25 og staðan orðin 1-1.

Þetta kveikti mikið líf í okkar liði og var allt annað að sjá til KA liðsins í þriðju hrinu. Strákarnir náðu strax góðu taki á leiknum og var sigur KA í raun aldrei í hættu. Á endanum vannst 25-17 sigur og KA aftur komið í forystu, 2-1.

Álftnesingar voru því komnir með bakið uppvið vegg og þurftu á sigri að halda í fjórðu hrinu. Þeir byrjuðu betur og leiddu frá upphafi og uns staðan var orðin 20-23. Þá tókst KA liðinu loksins að jafna metin með þremur stigum í röð. En gestirnir héldu áfram að leiða og þeir voru hársbreidd frá því að taka hrinuna því þeir leiddu 23-24, 24-25, 25-26 og 26-27 áður en KA liðinu tókst að snúa þessu við og að lokum vinna 29-27 sigur.

KA liðið sótti þar með öll þrjú stigin í leiknum og mjög jákvætt að ná því enda var um erfiðan leik að ræða. Það er ljóst að það mun taka smá tíma að spila liðið almennilega saman enda búið að vera töluvert um breytingar á okkar liði frá síðustu leiktíð. Þá verður líka gott að hafa bæði Alexander Arnar og Miguel Mateo í næsta leik enda algjörir lykilmenn í liðinu.

Miguel Mateo var stigahæstur í liði KA með 24 stig, Sölvi Páll Sigurpálsson gerði 6, Filip Pawel Szewczyk 5, Gunnar Pálmi Hannesson 5, Benedikt Rúnar Valtýsson 5, Hermann Biering Ottósson 3 og Vigfús Jónbergsson gerði 3 stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is