HK hélt lífi í einvíginu með 1-3 sigri

Blak
HK hélt lífi í einvíginu með 1-3 sigri
Stelpurnar klára þetta næst! (mynd: Þórir Tryggva)

KA gat tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna í dag er liðið tók á móti HK í þriðja leik liðanna. Stelpurnar höfðu unnið frekar sannfærandi sigra í fyrstu tveimur leikjunum en ljóst var að lið HK hafði ekki sagt sitt síðasta og því mátti búast við hörkuleik í dag sem svo sannarlega varð raunin.

Vel var mætt í KA-Heimilið og kannski einhverjir sem höfðu áhyggjur af spennustigi leikmanna KA enda pressan mikil á liðinu. Það virtist þó ekki bíta mikið á liðið til að byrja með og stelpurnar náðu snemma þægilegu forskoti í fyrstu hrinu. En gestirnir komu sér betur og betur inn í leikinn er leið á og þær jöfnuðu metin í 21-21 og komust svo yfir í 21-23.

KA liðið svaraði í 23-23 en það var ekki nóg og HK vann fyrstu hrinuna 23-25, mjög svo svekkjandi enda höfðu stelpurnar leitt hrinuna frekar vel og allt útlit fyrir að þær myndu taka hrinuna.

En ef einhver hélt að þetta myndi slökkva í okkar liði þá þekkir hann ekki karakterinn sem í því býr og stelpurnar komust í 5-1 í upphafi annarrar hrinu. Áfram svöruðu gestirnir og úr varð hörkuspennandi hrina. Um miðbik var staðan orðin 11-15 fyrir HK en KA liðið jafnaði í 16-16 og tók í kjölfarið forystuna. Stelpurnar voru mun sterkari á lokasprettinum og jöfnuðu í 1-1 með 25-21 sigri.

Miklar sveiflur voru í upphafi þriðju hrinu en HK gerði fyrstu fimm stigin áður en KA svaraði með næstu fimm stigum. Jafnt var á flestum stigum eftir það og skipti hvert einasta stig sköpum. Eftir þrælspennandi leik voru það gestirnir sem unnu 22-25 og tóku aftur forystuna, 1-2.

Stelpurnar voru því í þeirri stöðu að verða að vinna næstu hrinu til að knýja fram oddahrinu. HK náði nokkrum sinnum 4-5 stiga forystu en alltaf komu stelpurnar til baka og jöfnuðu metin. Staðan var jöfn 19-19 fyrir lokasprettinn og stemningin svakaleg í KA-Heimilinu. Á endanum voru það gestirnir sem höndluðu pressuna betur og þær tryggðu sér 1-3 sigur með 21-25 sigri í fjórðu hrinu.

HK minnkaði þar með muninn í 2-1 í leikjum og hélt sér enn á lífi í einvíginu. Liðin mætast aftur á miðvikudaginn í Fagralundi klukkan 19:30 og er áfram sama staða. KA tryggir sér titilinn með sigri en HK verður að sigra til að knýja fram oddaleik. Það skiptir öllu máli að við sem getum mæti á miðvikudaginn og styðjum stelpurnar til sigurs.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is