HK vann fyrsta leikinn hjá körlunum

Blak
HK vann fyrsta leikinn hjá körlunum
HK sá við strákunum í kvöld (mynd: Þórir Tryggva)

HK tók á móti KA í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla. Þrátt fyrir að KA væri Deildarmeistari fór fyrsti leikur á heimavelli HK en næstu tveir leikir fara svo fram í KA-Heimilinu. Það er mikilvægt að hefja einvígið af krafti og ljóst að mikilvægi þessa fyrsta leiks var mikið.

KA hóf leikinn af krafti og komst snemma 2-7 yfir, þá tóku heimamenn leikhlé og gerðu næstu fjögur stig. Mikil spenna var í leiknum en KA liðið náði að halda forystunni og komst í 20-24. HK minnkaði í 23-24 en nær komust þeir ekki og KA vann fyrstu hrinuna 23-25.

Staðan orðin 0-1 en ljóst að bæði lið voru mætt til að vinna enda ansi mikilvægt að hefja einvígið á sigri. HK hóf aðra hrinu betur og tók snemma forystuna. KA tókst loksins að jafna í 12-12 en áfram leiddi Kópavogsliðið. Staðan var 24-21 undir lokin en strákarnir gerðu vel í að jafna í 24-24 og hrinan fór í upphækkun. Næstu tvö stig voru hinsvegar HK og þeir jöfnuðu þar með metin í 1-1 með 26-24 sigri.

KA gerði fyrstu þrjú stigin í þriðju hrinu en HK svaraði með næstu fjórum. Í kjölfarið skiptust liðin svolítið á að leiða og var baráttan svakaleg. Eftir að heimamenn höfðu leitt 24-23 knúði KA fram upphækun og engin smá upphækkun sem það varð. Liðin skiptust á að leiða og spennan í algleymingi. Það fór svo á endanum að þetta féll HK megin 33-31 og HK komið í lykilstöðu, 2-1.

Hvort að þetta tap hafi verið of mikið áfall fyrir strákana skal ég ekki segja en HK tók strax forystuna og leiddi út hrinuna. Það var sama hvað KA liðið reyndi, HK virtist hafa góð svör við okkar leik og þá sérstaklega í hávörninni. Á endanum unnu þeir 25-21 sigur og leikinn þar með 3-1.

HK leiðir því einvígið 1-0 en næstu leikir fara fram í KA-Heimilinu á föstudag og laugardag, vinna þarf þrjá leiki til að hampa Íslandsmeistaratitlinum og ljóst að KA liðið þarf að nýta heimavöllinn ansi vel til að snúa stöðunni sér í vil.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is