Jóna valin best í liði Íslands á NEVZA

Blak
Jóna valin best í liði Íslands á NEVZA
Frábærir fulltrúar KA!

Norðurlandamót NEVZA í blaki hjá U19 ára landsliðunum fór fram um helgina og átti blakdeild KA alls fimm fulltrúa á mótinu sem fór fram í Rovaniemi í Finnlandi.

Þær Heiðbrá Björgvinsdóttir og Jóna Margrét Arnarsdóttir léku fyrir stúlknalandsliðið en stelpurnar léku um 3. sætið á mótinu en þurftu þar að lúta í gras fyrir Dönum og enduðu því í 4. sæti mótsins. Jóna Margrét var svo að mótinu loknu valin besti leikmaður íslenska liðsins en hún sýndi mjög góða takta í stöðu uppspilara þar sem hún batt saman spil liðsins.

Mótið hófst á föstudag þar sem stelpurnar áttu góðan leik á móti Svíum og unnu fyrstu hrinuna en töpuðu annarri. Þriðja hrinan var æsispennandi og tapaðist eftir upphækkun. Svíar komu þá fljúgandi inn í fjórðu hrinuna og unnu hana. Stelpurnar töpuðu svo fyrir danska liðinu á laugardag og síðar um daginn kom enn eitt tapið þegar það færeyska vann það íslenska. Þetta þýddi að stelpurnar enduðu í 5. sæti riðilsins og áttu þannig leik við liðið í fjórða sæti sem var Færeyjar. Ísland gerði sér lítið fyrir og vann 3-1 og lék því um bronsið á mótinu.


Jóna með verðlaun sín sem besti leikmaður Íslands

Þeir Draupnir Jarl Kristjánsson, Gísli Marteinn Baldvinsson og Sölvi Páll Sigurpálsson léku svo með drengjalandsliðinu en strákarnir lögðu frændur sína frá Færeyjum í lokaleiknum 3-1 og tryggðu sér þar með 5. sætið á mótinu.

Strákarnir mættu Noregi í fjórðungsúrslitum í gærmorgun en liðið átti frábæran leik og leika þurfti oddahrinu til að skera úr um hvort liðið færi í undanúrslitin. Noregur vann oddahrinuna og fór í undanúrslitaleikinn gegn Finnum.

Paula del Olmo Gomez leikmaður KA var svo aðstoðarþjálfari hjá stúlknalandsliðinu og þá dæmdi Sævar Már Guðmundsson fyrrum leikmaður KA á mótinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is