KA í lokaúrslit eftir frábæran sigur

Blak
KA í lokaúrslit eftir frábæran sigur
Það var lagið! (mynd: Egill Bjarni)

KA tryggði sér í kvöld sæti í lokaúrslitum Íslandsmótsins í blaki karla með frábærum 1-3 útisigri á HK í öðrum leik liðanna í undanúrslitum keppninnar. KA hafði unnið fyrri leik liðanna 3-1 í KA-Heimilinu og gat því með sigri klárað einvígið í kvöld.

Strákarnir byrjuðu leikinn í kvöld af miklum krafti og tóku strax yfirhöndina. Sama hvað HK reyndi þá tókst þeim aldrei að brúa bilið og KA vann að lokum frekar sannfærandi 20-25 í fyrstu hrinu og tók því forystuna 0-1.

HK sem varð að vinna leikinn til að knýja fram gullhrinu reyndi að svara í annarri hrinu en áfram var það KA liðið sem hafði frumkvæðið og spiluðu ákaflega beittan og öflugan sóknarleik. KA vann hrinuna 19-25 og komið í algjöra kjörstöðu 0-2.

Heimamenn voru því komnir í ansi erfið mál og þeir svöruðu fyrir sig í upphafi þriðju hrinu. Á sama tíma misstu strákarnir okkar aðeins hausinn og útlit fyrir sigur HK. KA liðið náði að koma til baka en það dugði ekki og HK knúði fram fjórðu hrinuna með naumum 25-23 sigri.

Fjórða hrina var æsispennandi þar sem HK leiddi en KA jafnaði leikinn ítrekað. Útlitið var svo ansi dökkt í stöðunni 22-20 en rétt eins og í leiknum í KA-Heimilinu reyndust strákarnir okkar sterkari er mest á reyndi og sóttu 23-25 sigur og þar með leikinn samtals 1-3.

Það hefur verið mikill stígandi í leik KA-liðsins í vetur og virðist sem liðið sé að toppa á hárréttum tíma. Framundan er hinsvegar sjálft úrslitaeinvígið gegn Deildar- og Bikarmeisturum Hamars og ljóst að það verður ansi krefjandi verkefni. Strákarnir mæta þó hvergi bangnir í það verkefni og verður spennandi að sjá hvernig það spilast.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is