KA vann í háspennuleik

Blak
KA vann fyrsta leik sinn í undanúrslitarimmu sinni við Stjörnuna úr Garðabæ. Leikurinn var þrælspennandi og jafn en KA vann eftir mikinn barning 3:2.

KA-Stjarnan      3:2 (25:22, 18:25, 25:23, 19:25, 15:10)

 

KA vann mikilvægan sigur á Stjörnuni fyrir í kvöld í mjög jöfnum og spennandi leik þar sem bæði lið sýndu flotta takta.

 

     KA-menn unnu fyrstu hrinuna 25:22 eftir að hafa náð góðum spretti undir lok hennar. Stjarnan svaraði með auðveldum sigri í þeirri næstu en þá voru heimamenn í tómu rugli og gerðu hver byrjendamistökin á fætur öðrum. Svo illa spilaði liðið að Marek þjálfari var orðinn alveg sótsvartur á hliðarlínunni. Fór hrinan 18:25. 

 

     Þriðja hrinan var sú mest spennandi og var jafnt nánast á öllum tölum upp í 15:15. KA tók þá smá kipp en Stjarnan minnkaði muninn í 24:23 áður en KA lokaði hrinunni með fínni sókn.

 

     Stjarnan tók strax völdin í fjórðu hrinunni og skipti þar sköpum frábær hávörn Aleksanders Simeonov sem hreinlega lokaði á Piotr Kempisty aðalsmassara KA-manna. Fór svo að lokum að Stjarnan vann örugglega 19:25.

 

     Í oddahrinunni tók KA strax frumkvæðið með flottri vörn jafnt upp við netið (og takið nú vel eftir) sem aftur á vellinum. Þeir gulklæddu komust í 8:4 og hleyptu Garðbæingum aldrei nálægt sér. Hrinunni lauk 15:10 og leiknum þar með 3:2.

 

     Sóknarleikur KA var flottur í leiknum en kannski full fyrirsjáanlegur á köflum. Piotr Kempisty og Hilmar Sigurjónsson fóru þar á kostum lengstum en áttu að sjálfsögðu sína feila. Pjotr var sérlega beittur í uppgjöfunum og náði sex ásum. Till var flottur í móttökunni og skilaði sínum sóknum og uppgjöfum mjög vel. Filip var að spila nokkuð vel upp og skilaði mörgum stigum upp við netið. Tvíbbarnir áttu í mesta basli á miðjunni en tóku mikilvægar blokkir í oddahrinunni. Árni var ekki að sýna sitt besta í móttöku og vörn en það kom ekki að sök í dag. Valli kom sprækur inn af bekknum og skilaði sínu með sóma. Þess má geta að Davíð Búi var veikur í bælinu og var því ekki með. Hjá Stjörnunni var Aleksander Siemonov gríðarlega góður, var nánast hálft liðið en aðrir leikmenn áttu sínar rispur.

 

Stig KA í leiknum (sókn-hávörn-uppgjöf)

 

 Piotr Kempisty  24  18-0-6
 Hilmar Sigurjónsson  14  14-0-0
 Till Wohlrab    9    7-2-0
 Hafsteinn Valdimarsson    8    6-2-0
 Kristján Valdimarsson    8    5-3-0
 Filip Szewczyk    8    4-2-2
 Valgeir Valgeirsson    2    1-1-0
     
     

 

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is