Mögnuð uppskera í blakinu um helgina

Blak
Mögnuð uppskera í blakinu um helgina
Stelpurnar töpuðu ekki hrinu (mynd: Þórir Tryggva)

Blaklið KA léku mikilvæga leiki um helgina en bæði karla- og kvennalið KA léku í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins auk þess sem kvennaliðið lék tvo leiki í Mizunodeildinni. Þórir Tryggvason ljósmyndari mætti á leik kvennaliðsins í gær og má sjá myndir hans með því að smella á myndina hér fyrir neðan.

Karlarnir sóttu lið Hamars í Hveragerði heim þar sem okkar lið var fyrirfram talið sterkara en þó vantaði stigahæsta leikmann liðsins, Miguel Mateo Castrillo, sem var á Akureyri að stýra kvennaliði KA í þeirra baráttu. Það kom þó ekki að sök og KA vann 1-3 sigur eftir að hafa leitt frekar sannfærandi nær allan leikinn.

Strákarnir því komnir í höllina og draumurinn um að vinna Bikarmeistaratitilinn annað árið í röð því vel á lífi. Stelpurnar eru einnig komnar í höllina eftir að hafa unnið 3-0 sigur á Þrótti Reykjavík á föstudeginum. Sigur okkar liðs var í raun aldrei í hættu og fengu allir leikmenn KA að spreita sig í leiknum.


Smelltu á myndina til að sjá fleiri myndir Þóris frá sigri stelpnanna á Þrótti Reykjavík

Liðin mættust svo tvívegis í Mizunodeildinni á laugardeginum og sunnudeginum. KA liðið er í gríðarlega harðri baráttu um sigur í deildinni og því ákaflega mikilvægt að sækja öll 6 stigin sem í boði voru í leikjunum tveimur.

Það var í raun aldrei spurning hvort stelpurnar myndu ná öllum stigunum en báðir leikirnir fóru 3-0 og aftur hafði KA liðið mikla yfirburði og dreifði álaginu vel með því að leyfa öllum leikmönnum að spila. Mjög jákvætt og gaman að sjá hve vel flestar stelpurnar nýttu tækifærið auk þess að fá þessi mikilvægu stig í toppbaráttunni.

Stelpurnar eiga nú aðeins tvo leiki eftir í deildinni og fara þeir fram næstu helgi er liðið sækir Þrótt Neskaupstað tvívegis heim. Þriggja stiga sigrar í leikjunum tryggir Deildarmeistaratitilinn en fyrir helgina er KA með 10 stiga forskot á HK sem á þrjá leiki til góða og getur því minnkað muninn niður í 1 stig.

Það er því ansi mikilvægt að stelpurnar klári sína leiki um næstu helgi til að vinna bikarinn en þurfa ekki að treysta á að HK misstígi sig. Það verður þó meira en að segja það að sækja tvo örugga sigra á Neskaupstað en Þróttur vann fyrri leik liðanna í vetur í KA-Heimilinu í oddahrinu og má því búast við hörkuleikjum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is