Paula, Elma, Mateo og Sigþór Íslandsmeistarar í strandblaki

Blak
Paula, Elma, Mateo og Sigþór Íslandsmeistarar í strandblaki
Paula og Elma sáttar að mótinu loknu

Íslandsmótið í strandblaki fór fram um helgina og má með sanni segja að árangur leikmanna KA á mótinu hafi verið til fyrirmyndar. Í karlaflokki urðu þeir Miguel Mateo Castrillo og Sigþór Helgason Íslandsmeistarar og í kvennaflokki urðu þær Paula del Olmo og Hulda Elma Eysteinsdóttir Íslandsmeistarar.

Þeir Mateo og Sigþór unnu alla þrjá leiki sína í riðlinum og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitunum. Þar lentu þeir í hörkuleik gegn Janis og Austris en fóru á endanum með 21-19 og 21-19 sigur af hólmi og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaleiknum. Þar unnu þeir 21-18 og 21-14 sigur á Eiríki og Emil og urðu þar með Íslandsmeistarar og það án þess að tapa hrinu.

Paula og Elma léku sama leik og karlarnir en þær unnu alla leiki sína í riðlinum og fóru þar með í undanúrslitin. Þar unnu þær 21-14 og 21-11 sigur á þeim Dýrleifi og Erlu og þar með komnar í úrslitaleikinn gegn Matthildi og Líney. Þar var mikil spenna í fyrstu hrinu sem fór 23-21 en Paula og Elma kláruðu þá næstu örugglega 21-11 og hömpuðu þar með Íslandsmeistaratitlinum og það án þess að tapa hrinu.

Við óskum okkar frábæru fulltrúum að sjálfsögðu til hamingju með þennan frábæra árangur og bíðum spennt eftir komandi blakvetri þar sem KA liðin stefna á að halda áfram sigurgöngu sinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is