Stórt skref stigið í átt að úrslitakeppninni

Blak
Stórt skref stigið í átt að úrslitakeppninni
Risa 3 stig í hús hjá KA liðinu (mynd: EBF)

KA tók á móti Aftureldingu í Mizunodeild karla í blaki í dag. Um algjöran stórleik var að ræða en liðin eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni og ljóst að bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda. Fyrir leikinn var KA í 4. sætinu með 15 stig en Mosfellingar í 5. sæti með 12 stig.

KA liðið gerði fyrsta stig leiksins en gestirnir svöruðu með næstu tveimur stigum. Allt útlit var fyrir jafna og spennandi fyrstu hrinu en í stöðunni 3-4 hrökk allt í baklás hjá okkar liði. Mosfellingar gjörsamlega keyrðu yfir strákana og komust í 3-11 og síðar 7-18. Fyrrum leikmenn KA þeir Sigþór Helgason og Quentin Moore fóru hamförum og virtist okkar lið ekki hafa nein svör.

Fyrsta hrinan tapaðist á endanum 10-25 og útlitið alls ekki gott. En sem betur fór tókst okkar liði að núllstilla sig fyrir næstu hrinu og það var allt annað að sjá strákana í annarri hrinu. Liðin börðust stál í stál og skiptust á að leiða en það munaði gríðarlega miklu um að hávörn KA liðsins fór að lesa sóknarleik Aftureldingar og náðu strákarnir á endanum 14 blokkstigum í leiknum. Staðan var jöfn 19-19 fyrir lokakaflann en þá sýndu strákarnir frábæran karakter og þeir unnu 25-20 sigur eftir magnaðan kafla og jöfnuðu því metin í 1-1.

Þarna var okkar lið komið almennilega í gang og strákarnir kaffærðu gestina í þriðju hrinu. KA komst strax í 9-2 og síðar 15-3 og ljóst að strákarnir væru að koma sér í algjöra lykilstöðu í leiknum mikilvæga. Að lokum vannst 25-11 sigur og KA komið í 2-1.

Gestirnir voru því komnir með bakið uppvið vegg fyrir fjórðu hrinu sem var heldur betur spennandi. KA leiddi en Mosfellingar voru aldrei langt undan og jöfnuðu iðulega jafn harðan. Staðan var 13-12 fyrir KA um miðbik hrinunnar þegar strákarnir gerðu fimm stig í röð og komust í 18-12. Þarna gengu þeir frá dæminu og hrinuna kláruðu þeir 25-21 og leikinn því samtals 3-1.

Gríðarlega mikilvægur sigur staðreynd og einnig heldur betur mikilvægt að taka öll þrjú stigin. Byrjunin á leiknum var alveg herfileg hjá liðinu en strákarnir sýndu mikinn karakter í að koma sér í gang og snúa leiknum sér ívil. Nú þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni er KA með 18 stig en Mosfellingar 12 og steig liðið því ansi stórt skref í áttina að sæti í úrslitakeppninni. KA situr nú í 3.-4. sæti með Álftnesingum og verður gaman að sjá hvort liðið endar ofar í deildinni.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur í liði KA með 18 stig, Alexander Arnar Þórisson gerði 15, Benedikt Rúnar Valtýsson 8, Gísli Marteinn Baldvinsson 4, Gunnar Pálmi Hannesson 3 og Filip Pawel Szewczyk 2.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is