3-2 tap fyrir FH

Fótbolti
3-2 tap fyrir FH
KA fagnar seinna marki sínu - Vísir / Daníel

KA tapaði í gær fyrir FH í Kaplakrika í æsispennandi leik sem lauk með 3-2 sigri heimamanna. Staðan í hálfleik var 1-0 FH í vil en síðari hálfleikurinn var heldur betur fjörlegur og réðust úrslit leiksins á síðustu stundu.

FH 3 - 2 KA
1 - 0 Halldór Orri Björnsson (’6)
1 - 1 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’52) Stoðsending: Ýmir Már
1 - 2 Elfar Árni Aðalsteinsson (’65) Stoðsending: Hallgrímur Mar
2 - 2 Björn Daníel Sverrisson – Víti (’75)
3 - 2 Halldór Orri Björnsson (’87)

Lið KA:
Aron Dagur, Haukur Heiðar, Torfi Tímoteus, Callum, Ýmir Már, Andri Fannar, Almarr, Daníel, Hrannar Björn, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:
Kristijan Jajalo, Ólafur Aron, Hallgrímur J, Birgir Baldvins, Ottó Björn, Brynjar Ingi og Sæþór Olgeirs.

Skiptingar:
Sæþór inn – Hrannar Björn út (’82)
Brynjar Ingi inn – Haukur Heiðar út (’86)

Liðið í gær

KA mætti FH í gær á Kaplakrikavelli í 3.umferð Pepsi Max Deildarinnar. Óli Stefán gerði eina breytingu á liðinu frá sigrinum gegn Val í síðustu umferð. Inn í liðið kom Andri Fannar í stað Steinþórs sem var meiddur. En einnig voru Alexander Groven, Ásgeir og tvíburarnir Nökkvi Þeyr og Þorri Mar Þórissynir fjarri vegna meiðsla.

KA liðið hóf leikinn ekki vel og tóku heimamenn í FH öll völd á upphafsmínútum leiksins. Þegar einungis sex mínútur voru liðnar átti FH góða skyndisókn upp völlinn sem lauk með því að Björn Daníel átti hörkuskot að marki sem Aron Dagur varði en Halldór Orri fylgdi vel á eftir og heimamenn komnir yfir eftir aðeins nokkra mínútna leik.

KA liðið var í basli fyrsta hálftíma leiksins og en náði að koma sér betur inn í leikinn og voru líklegri þegar að leið á hálfleikinn. Staðan í hálfleik var hins vegar 1-0 FH Í vil.

KA liðið tók góða spilkafla úr seinni hluta fyrri hálfleiks með sér í þann síðari því liðið byrjaði hann af miklum krafti og var einungis spurning hvenær jöfnunarmarkið kæmi.

Þegar að hálfleikurinn var tíu mínútuna gamall var brotið á Ými Má rétt fyrir utan teig. Atkvæðmesti leikmaður KA liðsins á leiktímabilinu til þessa Hallgrímur Mar steig þá á vettvang og þrumaði hann boltanum í fjærhornið eins og honum einum er lagið framhjá Gunnari Nielsen í marki FH og KA búið að jafna metin við mikinn fögnuð fjölmargra stuðningsmanna sinna á Kaplakrikavelli.

Svo virtist sem KA liðinu blési byr undir báða vængi við jöfnunarmarkið og bætti liðið bara í sóknarleikinn.

Um miðbik seinni hálfleiks átti KA liðið góða sók Hallrímur Mar átti þá góða sendingu fyrir markið þar sem Elfar Árni mætti eins og gammur í vítateiginn og henti sér á boltann og kom honum snyrtilega framhjá Gunnari í marki FH sem varð fyrir meiðslum í markinu og þurfti að fara útaf vellinum en KA komnir í forystu eftir frábæra framistöðu í síðar hálfleik. 1-2 fyrir KA.

Við seinna mark KA færðist liðið hins vegar aðeins aftar á völlinn og bauð það hættunni svo sannarlega heim. Á 72. mínútu braut Haukur Heiðar af sér rétt fyrir utan teig og aukaspyrna dæmd en FH-ingar vildu meina að brotið hefði átti sér stað innan teigs og voru þeir vægast sagt ósáttir. Spyrnuna tók Björn Daníel og skaut hann boltanum í höndina á Torfa Tímoteus og víti réttilega dæmt og fór Björn á punktinn og jafnaði hann metin fyrir FH með föstu víti upp í hornið hægra megin, óverjandi fyrir Aron Dag í marki KA.

FH liðið hélt áfram að sækja grimmt að marki KA undir restina og bar stórsókn þeirra árangur þegar að þrjár mínútur lifðu venjulegs leiktíma. Þá átti Björn Daníel hnitmiðaða sendingu inn fyrir á Halldór Orra sem var skyndilega sloppinn einn í gegn og skoraði hann framhjá Aroni Degi og FH aftur komið í forystu og lítil tími til stefnu fyrir KA til að jafna metin.

KA liðið setti hins vegar allt púður í það jafna metin í leiknum og þegar að uppbótartíminn var að líða undir lok gerðist heldur betur umdeilt atvik en þá togaði Guðmann, Sæþór Olgeirs niður í vítateig FH en dómari leiksins dæmdi ekkert og KA liðið rænt upplögðu tækifæri til að jafna metin. Vægast sagt umdeildur dómur og KA menn gífurlega ósáttir að ekkert hafi verið aðhafst. 

Stuttu seinna var flautað til leiksloka og sárt tap niðurstaðan. Kaflaskipt frammistaða hjá KA liðinu sem byrjaði leikinn illa en vann sig svo inn í hann og var að spila frábæran fótbolta fyrri hluta síðari hálfleiks en gaf svo eftir í restina.

KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (Á stóran þátt í báðum mörkum KA og var stórhættulegur í sóknum KA. Verið frábær í sumar og virkar í sínu allra besta formi. Sex mörk í fjórum leikjum er ekki amalegt.)

Það er stutt í næsta leik og er hann á miðvikudaginn þegar að við fáum Breiðablik í heimsókn á Greifavöllinn. Hefst sá leikur kl. 19.15 og hvetjum við allt KA fólk til að fylgja eftir frábæri mætingu á fyrsta heimaleik gegn Val með því að mæta á völlinn og styðja við bakið á KA liðinu. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is