4-0 stórsigur á Íslandsmeisturunum

Fótbolti
4-0 stórsigur á Íslandsmeisturunum
Frábær sigur staðreynd (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti Íslandsmeisturum Vals í fyrsta leik liðanna í Lengjubikarnum í fótbolta í Boganum í dag. Fyrir leikinn var KA liðið búið að vinna alla sína æfingaleiki á undirbúningstímabilinu en ljóst að leikur dagsins yrði gríðarlega krefjandi enda flestir á því að lið Vals sé það besta á landinu.

KA 4-0 Valur 
1-0 Guðjón Pétur Lýðsson, víti ('38) 
2-0 Ólafur Aron Pétursson ('78) 
3-0 Þorri Mar Þórisson ('80) 
4-0 Torfi Tímoteus Gunnarsson ('90) 

Leikurinn hófst eins og ætla mátti, Valsararnir voru meira með boltann og KA liðið varðist vel. Svo vel reyndar að þrátt fyrir að okkar lið sæi boltann lítið á köflum þá var lítil sem engin hætta upp við mark okkar liðs. Það var í raun magnað að fylgjast með skipulaginu og aganum hjá varnarlínunni og þar fyrir aftan var Aron Dagur Birnuson klár þegar hann þurfti að stíga inn í.

Það var svo á 38. mínútu sem að Hallgrímur Mar Steingrímsson var felldur innan teigs og KA fékk því vítaspyrnu. Guðjón Pétur Lýðsson steig á punktinn og var ákaflega öruggur þegar hann sendi Anton Ara í vitlaust horn og staðan orðin 1-0 sem voru svo hálfleikstölur.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og hvernig fyrri hálfleikurinn hafði spilast, lið Vals reyndi að finna glufur á okkar liði en gekk ákaflega illa að skapa hættu. Á sama tíma hafði markið gefið okkar liði aukið sjálfstraust og var gaman að sjá stígandann í spili okkar liðs sem varð betra og betra er á leið leikinn.

Það var svo á 57. mínútu sem að leikurinn breyttist er Ólafur Karl Finsen í liði Vals uppskar sitt seinna gula spjald og þar með rautt. Tæpum 10 mínútum seinna fékk Kaj Leo í Bartalsstovu beint rautt spjald er hann virtist henda Andra Fannari Stefánssyni í jörðina og í leiðinni fara í andlitið á honum. KA því tveimur fleiri og í lykilstöðu á að klára leikinn.

Ólafur Aron Pétursson og Þorri Mar Þórisson komu inná og þeir áttu svo eftir að setja mark sitt á leikinn. Ólafur Aron tvöfaldaði forystu KA með laglegu skoti rétt fyrir utan vítateiginn eftir frábæran undirbúning frá Daníel Hafsteinssyni.

Stuttu síðar var staðan orðin 3-0 þegar Þorri Mar rak endahnútinn á góða KA sókn þar sem Hrannar Björn Steingrímsson fékk fyrirgjöf inn í teiginn og Hrannar tók hann í fyrsta fyrir markið þar sem Þorri kláraði listilega vel.

Torfi Tímoteus Gunnarsson skoraði svo fjórða markið skömmu fyrir leikslok eftir barning í teignum. Ótrúlegar tölur í Boganum og væntanlega ekki margir sem reiknuðu með svona stórum sigri á Íslandsmeisturunum.

Frábær byrjun í Lengjubikarnum og er KA liðið á toppi riðilsins eftir fyrstu umferðina á markatölu. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Fram á laugardaginn næsta og verður spennandi að sjá hvernig strákarnir mæta til leiks enda verður það væntanlega allt öðruvísi leikur en í dag.

Það var gríðarlega jákvætt að sjá hve mikið liðið bætti sig er leið á leikinn í dag enda erum við að spila mikið á ungum strákum sem eru greinilega klárir í slaginn og óhræddir við að láta finna fyrir sér. Valsliðið hinsvegar missti algjörlega hausinn og uppskar tvö rauð spjöld og það ber einnig að hrósa okkar liði fyrir að halda dampi og á endanum keyra yfir andstæðinginn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is