Bikarslagur á Greifavellinum í kvöld

Fótbolti
Bikarslagur á Greifavellinum í kvöld
Strákarnir ætla sér áfram í bikarnum!

Það er stutt á milli leikja þessa dagana en í kvöld hefur KA liðið þátttöku sína í Mjólkurbikarnum þetta árið. Leiknir Reykjavík mætir norður á Greifavöllinn í 32-liða úrslitum keppninnar og má búast við skemmtilegum leik eins og bikarkeppnin býður iðulega upp á.

Leiknismenn leika í Lengjudeildinni og eru með 3 stig eftir fyrsta leik sinn í sumar en þeir unnu góðan 1-3 útisigur á Þrótturum í fyrstu umferðinni. Síðast þegar KA mætti Leikni var það einmitt hér fyrir norðan sumarið 2016 og vannst þá góður 3-1 sigur með tveimur mörkum frá Hallgrími Mar Steingrímssyni og einu frá Juraj Grizelj. Sá sigur réði miklu um að KA vann sigur í deildinni og tryggði sér sæti í efstu deild.

Fyrr það sumarið mættust liðin á Leiknisvelli og vann KA einnig sigur í þeim leik. Ásgeir Sigurgeirsson og Halldór Hermann Jónsson tryggðu 0-2 sigur KA-liðsins í Breiðholtinu og verður gaman að sjá hvort að tak KA-liðsins á Breiðhyltingum haldi áfram í kvöld.

Leikur kvöldsins hefst klukkan 18:00 og eru strákarnir staðráðnir í að fara áfram í 16-liða úrslitin og þurfa á þínum stuðning að halda!

Ef þú kemst ekki á völlinn þá bendum við á að hasarinn verður í beinni á Stöð 2 Sport, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is