Bjarni Mark lék sinn þriðja A-landsleik

Fótbolti
Bjarni Mark lék sinn þriðja A-landsleik
Okkar maður stóð fyrir sínu (mynd: fotbolti.net)

Bjarni Mark Antonsson lék í dag sinn þriðja A-landsleik er hann kom inn á í vináttuleik Íslands og Svíþjóðar er fór fram í Portúgal. Ísland leiddi 1-0 í hálfleik en Svíþjóð náði að jafna metin á 85. mínútu og kláraði loks leikinn með flautumarki og gríðarlega svekkjandi 1-2 tap því niðurstaðan.

Þetta var eins og áður segir þriðji landsleikur Bjarna en hann hafði leikið í vináttulandsleikjum gegn Kanada og El Salvador í janúar 2020 sem báðir unnust 1-0 og var Bjarni í byrjunarliðinu í leiknum gegn El Salvador og lék allan leikinn.

Var þetta annar vináttuleikur íslenska liðsins á dögunum en Ísland gerði 1-1 jafntefli við Eistland á sunnudaginn og var Nökkvi Þeyr Þórisson í byrjunarliðinu og lék þar sinn fyrsta A-landsleik. Nökkvi var hinsvegar ekki í landsliðshópnum í dag en hann var farinn aftur til liðs við Beerschots í Belgíu.

Bjarni sló í gegn hjá KA, þá sérstaklega sumarið 2018 og var valinn leikmaður ársins af Schiöthurum stuðningsmannasveit KA. Hann var í kjölfarið seldur til sænska liðsins IK Brage þar sem hann lék í þrjú ár. Í janúar árið 2022 gekk Bjarni í raðir IK Start í Noregi þar sem hann leikur í dag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is