Frábær 0-3 útisigur lyfti KA á toppinn!

Fótbolti

KA gerði sér lítið fyrir og sótti frábæran 0-3 sigur upp á Skipaskaga í 6. umferð Bestu deildar karla í dag og stórkostleg byrjun á fótboltasumrinu heldur því áfram. KA er nú með 16 stig af 18 mögulegum og situr á toppi deildarinnar en Breiðablik á leik til góða þar fyrir aftan.

KA hefur haft gott tak á Skagamönnum að undanförnu og vann meðal annars 0-2 sigur á Akranesi í fyrra og fengu strákarnir draumabyrjun á leiknum er Daníel Hafsteinsson þrumaði boltanum glæsilega upp í skeytin rétt utan teigs strax á 12. mínútu og staðan því orðin 0-1.

Ekki gerðist margt marktækt í fyrri hálfleiknum og áttu bæði lið í smá brasi með aðstæðurnar á vellinum enda töluverður vindur auk þess sem grasið er að koma upp eins og gengur og gerist á þessum árstíma.

Heimamenn komu af krafti inn í síðari hálfleikinn og reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin en KA liðið er gríðarlega agað og skipulagt og gaf fá færi á sér. Elfar Árni Aðalsteinsson tvöfaldaði svo forystuna á 53. mínútu með frábærri baráttu þegar hann náði stungusendingu og kláraði af sinni stöku snilld.

Markið kom gegn gangi leiksins en skömmu síðar fengu Skagamenn dauðafæri á að koma sér aftur inn í leikinn er þeir fengu vítaspyrnu. Steinþór Már Auðunsson í marki KA gerði sér hinsvegar lítið fyrir og hálfgreip spyrnu Gísla Laxdal. Stubbur hefur verið algjörlega stórkostlegur í marki KA í byrjun sumars og hefur ef eitthvað er bætt enn í frá sinni mögnuðu frammistöðu í fyrra.

Jakob Snær Árnason fullkomnaði svo sigur KA á 81. mínútu þegar hann renndi boltanum í netið eftir laglega sókn KA-liðsins og afar sanngjarn og sannfærandi 0-3 sigur staðreynd.

Það er hrikalega gaman að fylgjast með strákunum í upphafi sumars, liðið er að spila góðan og agaðan leik og hefur til að mynda haldið hreinu í fimm af sex leikjum sínum til þessa. Þá eru strákarnir einnig ákaflega beittir fram á við og ljóst að það er afar skemmtilegt sumar framundan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is