Frábær sigur Þórs/KA í fyrsta leiknum

Fótbolti
Frábær sigur Þórs/KA í fyrsta leiknum
Karen María skoraði tvö í dag (Mynd: Sævar Geir)

Þór/KA tók á móti Stjörnunni í dag í fyrsta leik sumarsins. Stelpunum hafði verið spáð 7. sæti fyrir sumarið en gestunum því 5. en ljóst að bæði lið ætla sér stærri hluti en það. Leikurinn fór fjörlega af stað og byrjuðu stelpurnar okkar leikinn betur.

Þór/KA 4 - 1 Stjarnan
1-0 María Catharina Ólafsd. Gros ('16)
2-0 Karen María Sigurgeirsdóttir ('31)
3-0 Hulda Ósk Jónsdóttir ('51)
3-1 María Sól Jakobsdóttir ('53)
4-1 Karen María Sigurgeirsdóttir ('57)

Margrét Árnadóttir kom sér tvívegis í færi á upphafsmínútunum en inn vildi boltinn ekki. Eftir um kortérsleik fékk Hulda Ósk Jónsdóttir boltann og hún gerði vel í að ná skoti á markið en boltinn í stöngina og út.

Skömmu síðar átti Margrét frábæra sendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar inn á Maríu Catharinu. Birta kom út úr markinu en frábær snerting hjá Maríu kom henni framhjá Birtu og eftirleikurinn auðveldur. María hafði byrjað leikinn af gríðarlegum krafti og átti markið heldur betur skilið.

Meira líf færðist í gestina í kjölfar marksins og áttu þær til að mynda tvær hornspyrnur sem sköpuðu usla. En það var hinsvegar Karen María Sigurgeirsdóttir sem tvöfaldaði forystu okkar liðs þegar boltinn datt fyrir hana rétt utan teigs og hnitmiðað skot hennar fór beinustu leið í netið og staðan orðin ansi góð, 2-0!

Það munaði svo minnstu að María næði að gera sitt annað mark í leiknum eftir frábæra sendingu frá Margréti en skot hennar á nærstöngina fór rétt framhjá. Hálfleikstölur voru því 2-0 og hefðu mörk okkar liðs hæglega getað verið fleiri.

Ekki þurftu stuðningsmenn Þórs/KA að hafa áhyggjur af því að stelpurnar myndu slaka á í þeim síðari því þær héldu áfram uppteknum hætti og stýrðu leiknum. Hulda Ósk Jónsdóttir gerði þriðja markið á 51. mínútu þegar hún skallaði hornspyrnu Karenar af miklu harðfylgi í netið.

En þá leið ekki á löngu uns Stjörnustúlkur komu sér á blað, þær nýttu sér misskilning í vörn okkar liðs, renndu boltanum til Maríu Sól Jakobsdóttur sem var alein fyrir framan markið og hún skilaði honum í netið framhjá Hörpu í markinu.

Markaregnið hélt áfram og Karen María gerði sitt annað mark með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Birta tók skref fram í markinu og gerði væntanlega ráð fyrir fyrirgjöf en Karen María smellhitti boltann sem fór beint við skeytin og staðan því orðin 4-1 og aðeins 58. mínútur búnar af leiknum.

Tempóið í leiknum datt niður eftir fjórða mark okkar liðs og gerðu bæði lið þó nokkrar breytingar enda úrslitin í rauninni ráðin. Á 75. mínútu kom Gabriela Guillen með frábæra fyrirgjöf eftir flottan sprett á kantinum en Berglind Baldursdóttir náði ekki að stýra boltanum á markið og sluppu gestirnir því með skrekkinn.

Fleiri urðu mörkin ekki og 4-1 stórsigur Þórs/KA því staðreynd í fyrsta leik sumarsins. Fyrirfram mátti búast við spennandi og krefjandi leik en það er allavega ljóst að stelpurnar koma betur stemmdar inn í sumarið eftir Covid-19 pásuna heldur en Garðbæingar.

Það verður gaman að sjá hvort stelpurnar nái sama krafti í næsta leik en næsti leikur er einnig heimaleikur en hann er á laugardaginn næsta gegn ÍBV.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is