Fyrst KA-kvenna í atvinnumennsku í fótbolta

Fótbolti
Fyrst KA-kvenna í atvinnumennsku í fótbolta
Anna Rakel í liðsbúningi Linköpings FC

Knattspyrnukonan Anna Rakel Pétursdóttir stökk út í djúpu laugina í desember sl. þegar hún gerði tveggja ára samning við Linköpings FC, eitt af sterkustu liðum Svíþjóðar. Eftir því sem næst verður komist er Rakel fyrsta uppalda KA-stelpan sem gerir atvinnumannasamning í fótbolta.

Rakel er fædd árið 1998, hún verður 21 árs gömul í ágúst nk. Þrátt fyrir að vera ung að árum er Rakel reynslumikil, hún æfði og spilaði með KA upp yngri flokkana og hóf síðan að spila með meistaraflokki Þórs/KA árið 2014 og á ferilskránni eru 95 meistaraflokksleikir og í þeim hefur hún skorað tíu mörk. Með Þór/KA varð Rakel Íslandsmeistari, Meistari meistaranna og Lengjubikarmeistari. Landsleikirnir eru orðnir þrjátíu talsins, þar af 6 A-landsleikir, 10 U-19 leikir, 11 U-17 leikir og 3 U-16 leikir. Í janúar 2018 var hún útnefnd Íþróttamaður KA fyrir árið 2017.


Anna Rakel var í stuttu sumarfríi á Akureyri í júní, þá var þessi mynd tekin.

Eitt af sterkustu liðum Svíþjóðar
Linköpings FC hefur sterka leikmenn í öllum stöðum og það segir sína sögu um styrk liðsins að í leikmannahópnum eru fimm leikmenn sem voru í bronsliði Svíþjóðar á heimsmeistaramótinu í Frakklandi og einn leikmaður liðsins var í HM-hópi Norðmanna (Frida Maanum).
Sænsku landsliðsstelpurnar sem spila með Rakel eru nokkrar af stjörnum HM-liðs Svía. Á miðjunni eru Lina Hurtig og hin frábæra Kosovari Asllani, sem skoraði fyrra mark Svía í leiknum um bronsið gegn Englandi sl. laugardag, í framlínunni eru Mimmi Larsson og Stina Blackstenius, sem skoraði mark Svía í 16 liða úrslitunum gegn Kanada og sigurmarkið í leiknum gegn Þjóðverjum í átta liða úrslitum, og í vörninni er Nilla Fischer, sem hefur spilað með Wolfsburg í Þýskalandi en er nú gengin í raðir Linköpings.

Linköpings varð Svíþjóðarmeistari 2016 og 2017 en endaði í fimmta sæti í deildinni á síðasta tímabili. Þegar sjö umferðum er lokið í deildinni í ár er Linköpings í þriðja sæti, með jafn mörg stig og liðið í öðru sæti en með lakara markahlutfall. Rakel hefur verið í byrjunarliðinu í öllum þessum sjö leikjum, sem verður að teljast vel að verki staðið hjá nýjum leikmanni hjá félaginu, þar sem mikil samkeppni er um sæti í liðinu og nokkrar af bestu leikmönnum heims spila. Mögulega verða einhverjar breytingar á leikmannahópi liðsins á næstunni því fréttir herma að fjárhagsstaða Linköpings hafi verið nokkuð þröng að undanförnu.  

Vegna heimsmeistaramótsins í Frakklandi hefur verið óvenju langt hlé í sænsku deildinni í sumar og af þeim sökum brá Rakel sér í sumarfrí til Akureyrar í júní og hvíldi lúin bein. Hún gaf sér tíma til þess að segja frá fótboltanum og hinu daglega lífi í atvinnumennskunni.

Þolir ekki að tapa
„Ég held að ég hafi verið fjögurra ára gömul þegar ég fór á fyrstu æfinguna hjá KA. Þá minnir mig að mögulega hafi ein önnur stelpa á mínum aldri verið að æfa. Ég var sett á æfingar með strákunum, jafnöldrum mínum, og æfði meira og minna með þeim upp í sjötta flokk. Eftir á að hyggja tel ég að það hafi verið gott fyrir mig að æfa með strákunum. Ég hafði strax mikinn áhuga á fótbolta og mamma rifjar stundum upp að ég hafi verið fimm eða sex ára gömul þegar ég hafði orð á því að ég ætlaði að verða atvinnumaður í Malmö í Svíþjóð! Ekki veit ég af hverju Malmö en kannski spila ég einhvern tímann síðar þar, hver veit? En ég held að ég hafi snemma ákveðið að ég vildi ná langt í fótboltanum og metnaður minn stóð til þess. Margir taka pásu í boltanum í uppvextinum eða jafnvel hætta þegar er komið að því að fara í framhaldsskóla. Hjá mér kom slíkt ekki til greina. Ég hef aldrei fundið fyrir leiða í boltanum eða misst áhugann. Til viðbótar við fótboltann æfði ég líka handbolta og gönguskíði á mínum yngri árum en fótboltinn var þó alltaf númer eitt.“

Það kom hreint ekki á óvart að Rakel skyldi hella sér í fótboltann enda hefur hann í gegnum tíðina verið nokkuð áberandi á heimilinu. Ólafur Aron, eldri bróðir Rakelar, hefur einnig verið í boltanum frá barnsaldri og Pétur hafnarstjóri Ólafsson, pabbi Rakelar, var knattspyrnuþjálfari til fjölda ára, bæði í meistaraflokki og yngri flokkum. „Aron, sem er þremur árum eldri en ég, var örugglega fyrstur til að draga mig með sér í fótbolta. Ég hataði að tapa fyrir honum og fór alltaf í fýlu ef það gerðist. Ég var og er tapsár. Ég á það til að fara í fýlu ef ég tapa á æfingum. Fyrir nokkrum vikum hringdi ég í pabba eftir æfingu hjá Linköpings. Hann spurði mig hvað væri að frétta. „Ekki gott,“ sagði ég, „ég tapaði á æfingu.“ Pabbi skilur þetta en mömmu fannst stundum pirrandi þegar ég kom brjáluð heim eftir að hlutirnir gengu ekki upp á æfingum eða í leikjum. En ætli þetta heiti ekki keppnisskap, ég held það. Það kemur manni oft langt.“


Heimavöllur Linköpings FC - Linköping Arena

Lengi haft áhuga á að spila í Svíþjóð
Rakel spilaði upp alla yngri flokkana í KA og öðlaðist einnig reynslu sem yngriflokkaþjálfari. Fimmtán ára gömul spilaði hún sinn fyrsta leik í meistaraflokki Þórs/KA. Hún rifjar upp að henni hafi þótt í senn skrítið og erfitt, sem KA-maður í húð og hár, að klæðast hvít/rauðum búningi Þórs. Síðar var mörkuð sú stefna að leikmenn Þórs/KA væru í hlutlausum búningi sem hvorki ætti skylt við félagsbúninga Þórs né KA. „Ég viðurkenni alveg að það var stærra skref fyrir okkur KA-stelpurnar en stelpurnar í Þór að keppa undir merkjum Þórs/KA. Við vorum í félagsbúningi Þórs og æfðum á Þórssvæðinu. Að mínu mati var það síðan hárrétt og nauðsynlegt skref þegar ákveðið var að Þór/KA spilaði í hlutlausum búningi. Jói Gunnars þjálfaði Þór/KA á þessum tíma og hann setti mikið traust á mig. Til að byrja með var ég mest á bekknum en fljótlega var ég í byrjunarliði í flestum leikjum. Mér gekk því vel að laga mig að meistaraflokksboltanum.
Ég fór í MA og með skólanum æfði ég og spilaði með Þór/KA. Á menntaskólaárunum gekk mér ágætlega í boltanum og ég leiddi hugann að því að taka næstu skref. Ég horfði strax í þeim efnum til útlanda, í mínum huga kom ekki til greina að fara til annars liðs hér á landi. Ég lauk stúdentsprófi frá MA fyrir rúmu ári og eftir síðasta tímabil, þegar samningur minn við Þór/KA rann út, fengun við Sandra María Jessen boð um að æfa með þýska liðinu Bayer Leverkusen. Það hafði verið sameiginleg ákvörðun mín og Þórs/KA að samningur minn rynni út eftir að ég kláraði MA og ég hefði þá möguleika á að fara út fyrir landsteinana, ef það væri í boði. Ég hafði fengið fyrirspurnir frá umboðsmönnum erlendis frá en ég ýtti því öllu frá mér, enda var ég samningsbundinn Þór/KA og vildi að sjálfsögðu ljúka síðasta tímabili eins og samningurinn kvað á um. Við Sandra María þáðum að æfa með Bayer Leverkusen og vorum þar í nokkra daga sl. haust. Það var mjög skemmtilegt og gekk vel. Eftir að við komum heim vorum við áfram í sambandi við þýska félagið og okkur var báðum boðinn samningur. Sandra skrifaði undir samning við félagið og spilar þar núna. Á þessum tíma kom einnig í ljós áhugi Linköpings að fá mig til félagsins. Það vakti strax áhuga minn því ég hef lengi haft áhuga á að fara til Svíþjóðar. Bayer Leverkusen sýndi mér meiri áhuga sem miðjumaður en vinstri bakvörður. Sænska liðið vildi hins vegar fá mig í stöðu vinstri bakvarðar. Í ljósi þess að ég hef spilað vinstri bakvörð í íslenska landsliðinu varð það mín niðurstaða að velja þann kost að fara til Linköpings og ég sé ekki eftir því.“


Rakel með liðsfélögum sínum á góðum degi

Í vinstri bakverði og á miðjunni hjá Linköpings
Rakel er örfætt og slíkir leikmenn vaxa ekki á trjánum, er óhætt að segja. Bakvarðastaðan er því eins og sniðin fyrir Rakel. Linköpings leitaði að vinstri bakverði og leitin bar sem sagt árangur norður á Akureyri. „Ég skrifaði undir tveggja ára samning við Linköpings í desember sl. og flutti út 6. janúar. Ég er því búin að vera úti í sex mánuði. Vissulega bar þetta brátt að en það var aldrei neinn vafi í mínum huga að stökkva á þetta þegar mér bauðst það. Ég veit að mamma og pabbi hafa haft smá áhyggjur af því að mér leiðist þarna úti en ég hef sagt þeim að þau þurfi engar áhyggjur að hafa því ég sé í raun búin að að undirbúa í mörg ár að fara út. Ég hafði hugsað það vel að fara ekki of ung í atvinnumennsku, ég vildi ekki taka þetta skref fyrr en að loknum framhaldsskóla. Ég held að ég hafi verið í öðrum bekk í MA þegar ég framlengdi samninginn við Þór/KA. Þá var það niðurstaðan að samningurinn rynni út sl. haust, í lok tímabilsins eftir stúdentspróf. Ég er mjög sátt við að hafa gert þetta svona, það er í mínum huga mjög mikilvægt að hafa lokið stúdentsprófi með mínum jafnöldrum og hafa möguleika á að halda áfram í námi með fótboltanum.“

Út í djúpu laugina
Rakel segir að óneitanlega hafi hún hent sér strax út í djúpu laugina þegar hún kom til Svíþjóðar. Æfingar hófust af fullum krafti og fyrsti leikurinn í deildinni var gegn Växjö DFF 17. apríl sl. Að loknum sjö umferðum er Linköpings í þriðja sæti deildarinnar með fjórtán stig. Fyrsti leikur að loknu sumarhléi verður 22. júlí nk. á útivelli gegn Eskilstuna United DFF og síðasti deildarleikurinn verður á útivelli gegn Örebro 26. október. Það má því segja að tímabilið sé ekki ólíkt því sem er hér á landi, það byrjar þó eilítið fyrr og endar nokkrum vikum síðar en hér. Deildin er jafnan tvískipt, yfir sumarið er nokkurra vikna hlé sem í ár er óvenju langt vegna þátttöku sænska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Frakklandi.

Linköping teflir fram bæði karla- og kvennaliði. Karlaliðið er í neðri deildunum en kvennaliðið, sem fyrr segir, í toppbaráttu í efstu deild. Leikvangur liðsins, Linköping Arena, er hinn glæsilegasti, var tekinn í notkun árið 2013 og tekur á áttunda þúsund manns í sæti. Völlurinn er lagður fyrsta flokks gervigrasi.

Sem fyrr segir var Rakel í rösklega þriggja vikna sumarleyfi á Akureyri í júní en er nú aftur farin út til æfinga. Þrátt fyrir að vera í fríi á Akureyri fylgdi hún æfingaplani þjálfarateymis Linköpings. „Ég fékk bæði styrktar-og hlaupaprógram frá þjálfurunum og einnig var mælst til þess að ég æfði fótbolta. Ég fékk því að fara á nokkrar æfingar hjá Þór/KA. En jafnframt fékk ég þau skilaboð að ég þyrfti á góðri hvíld að halda því í seinni hluta mótsins verður mjög stutt á milli leikja og því bíður okkar strembið prógram.“


Rakel hefur spilað sex A-landsleiki fyrir Íslands hönd

Allt í kringum liðið er fyrsta flokks
Rakel leynir því ekki að hún hafi verið stressuð þegar hún mætti á fyrstu æfinguna hjá Linköpings í janúar sl. „Ég hafði ekki farið þarna út og skoðað aðstæður áður en ég skrifað undir samning við félagið og vissi því ekki við hverju var að búast. En mér var strax mjög vel tekið og ég er afar heppin með liðsfélaga og allt í kringum liðið. Ég fékk strax á tilfinninguna að þarna ætti ég heima, fyrir það er ég þakklát. Aldursbilið í liðinu er nokkuð breitt, sú elsta á fertugsaldri en þær yngstu fæddar árið 2000, tveimur árum yngri en ég. Umgjörðin er fyrsta flokks og það er hugsað vel um leikmennina. Almennt hefur mér gengið mjög vel, ég kom til liðsins til þess að spila stöðu vinstri bakvarðar en hef í síðustu leikjum verið að spila töluvert á miðjunni vegna meiðsla miðjumanns. Hann er núna að koma til baka úr meiðslum og því reikna ég með að færast aftur í bakvarðarstöðuna. Liðið er sterkt og mikil samkeppni um stöður. Ég er því aldrei viss um að halda stöðu minni og þarf því að berjast fyrir sætinu. Það má kannski segja að það sé stóri munurinn á því að spila þarna úti og hér heima, samkeppnin úti er mun meiri. Maður þarf alltaf að vera á tánum og má ekki eiga slæman dag eða slæma æfingu, það þýðir að líkurnar aukast á því að bekkurinn bíði í næsta leik. Sem er bara gott því þetta er aðhald sem verður til þess að maður bætir sig sem leikmaður. Liðið setur sér markmið fyrir hvern leik sem það spilar. Við ræðum saman á fundum, leikmenn og þjálfarar, þannig að við séum öll á sömu blaðsíðunni með hvað við ætlum okkur og viljum gera.“

Hið daglega líf í atvinnumennskunni
En hvernig skyldi líf atvinnukonu í fótbolta vera? „Á æfingatímabilinu yfir veturinn gengur þetta í stórum dráttum þannig fyrir sig að ég byrja á góðum morgunmat, fer síðan í einhverja létta hreyfingu eins og göngutúr, fer heim og læri – glugga í bækur og horfi á fyrirlestra á netinu. Að loknum hádegismat, um klukkan eitt, hjóla ég á æfingu og er á æfingasvæðinu frá eitt til fimm til hálf sex. Æfingarnar sjálfar eru frá rúmum klukkutíma upp í tæpa tvo tíma. Við byrjum reyndar á stuttum fundi fyrir hverja einustu æfingu. Þá eru lagðar línur um hvað við ætlum okkur að gera á æfingunni. Þegar leikur er daginn eftir eru fundirnir lengri og farið í leiktaktík, færslur og föst leikatriði. Til viðbótar við æfingarnar sjálfar vinnum við markvisst í því með þeim sem vinna fyrir liðið að fá okkur góðar af meiðslum eða einhverju smávægilegu hnjaski. Við höfum aðgang að þremur mismunandi líkamsræktarstöðvum og verjum að sjálfsögðu töluverðum tíma þar. Í vallarhúsinu er eldhús, skrifstofur þjálfarateymisins og aðstaða til afþreyingar, t.d. borðtennisborð, píluspjald o.fl. Aðstaðan er því fyrsta flokks. Síðastliðinn vetur gátum við alltaf æft úti, þrátt fyrir vetrarveður. Gervigrasið gerir það að verkum að við getum æft á aðalvellinum. Það eru mjög fá lið í efstu deildinni í Svíþjóð sem spila heimaleiki sína á náttúrulegu grasi. Þegar við erum að fara að spila útileiki við þessi lið æfum við á náttúrulegu grasi.
Mér finnst að á þessum stutta tíma hjá Linköpings hafi ég náð að bæta mig töluvert sem leikmaður, bæði líkamlega og andlega, og mér hefur tekist að auka sjálfstraustið. Ég hef átt í svolitlum vandræðum með það undanfarin ár og hef unnið í því að bæta það. Það finnst mér hafa tekist vel. Og það gerist ósjálfrátt að þegar ég æfi markvisst og spila með öflugum hópi leikmanna, eins og hjá Linköpings, þá bæti ég mig. Einnig er alltaf gott að fá nýja sýn á fótboltann, í nýju umhverfi og með nýtt þjálfarateymi. Allt fer þetta í reynslubankann og eflir mann og styrkir í boltanum.“

Rakel kann vel við sig í Linköping, þar sem búa vel á annað hundrað þúsund manns. Borgin er um 200 kílómetrum suðvestur af höfuðborginni Stokkhólmi. „Samfélagið í Svíþjóð er á ýmsan hátt alls ekki ólíkt Íslandi og Svíarnir hafa tekið mér mjög vel. Kvennaboltinn er hátt skrifaður í Svíþjóð, góð aðsókn er á leiki og umfjöllun í fjölmiðlum er töluvert mikil,“ segir Rakel. Hún segir að vel gangi með sænskuna. „Ég ákvað reyndar að fara ekki í sænskuskóla, heldur að reyna að læra tungumálið með því að hlusta á stelpurnar í liðinu og tala við þær á sænsku. Það gengur bara vel. Núna skil ég nánast allt og er farin að manna mig upp í tala. Auðvitað lærði ég dönsku í bæði grunnskóla og menntaskóla og það hjálpar mikið. Sænskan er á margan hátt lík dönskunni en sænsku stelpunum í liðinu finnst það ekki. Þær botnuðu ekkert í því hvernig ég færi að því að skilja nánast allt eftir tvær til þrjár æfingar.“

Mikill heiður að spila fyrir Íslands hönd
Um framtíðina segir Rakel að hún reikni fastlega með að ljúka gildandi samningi við Linköpings og svo verði bara að koma í ljós hvað gerist, hvort hún haldi þar áfram, verði það í boði, eða fari til einhvers annars liðs. „En ég reikna ekki með því að koma heim til Íslands á næstu árum. Ég ætla mér að reyna að ná eins langt og ég mögulega get í fótboltanum. Ég hef líka að sjálfsögðu mikinn metnað til þess að spila fyrir íslenska landsliðið, það er mikll heiður að fá að spila í íslensku landsliðstreyjunni og það ætti að vera takmark allra leikmanna að spila fyrir landsliðið. En fyrst og fremst hugsa ég um að standa mig sem allra best hjá mínu félagsliði og gangi það vel gæti það skilað sæti í landsliðinu. En ef ég spila ekki vel með mínu félagsliði get ég ekki ætlast til þess að verða valin í landsliðið. Áhersla mín er því fyrst og fremst sú að standa mig vel með Linköpings og sjá síðan hverju það skilar mér. Næstu verkefni A-landsliðsins verða í september nk. og það kemur bara í ljós hvort ég verð valin. Ég hef spilað rösklega tuttugu landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og sex A-landsleiki. Ég neita því ekki að því fylgir aðeins meiri fiðringur að undirbúa landsleiki en leiki með félagsliðum en þegar inn á völlinn er komið gleymist það, þegar allt kemur til alls er þetta bara fótbolti, hvort sem er hjá félagsliði eða landsliði.“

Sem fyrr segir hóf Rakel að spila knattspyrnu fjögurra ára gömul og hún sá fyrir sér ung að árum að fara í atvinnumennsku. Draumurinn hefur nú ræst. Hver eru skilaboðin til ungra stelpna á Íslandi sem eru að taka sín fyrstu skref í fótbolta? „Fyrst og fremst að hafa ánægju af því að vera í fótbolta. Einnig er mikilvægt að æfa og æfa og aukaæfingin skapar meistarann. Ég hélt meira og minna til á sparkvellinum þegar ég var lítil. Ég rétt skaust heim til þess að borða kvöldmat en var síðan aftur farin út á völl. Og ef ég var ekki á sparkvellinum var ég úti í garði að rekja boltann í kringum skó sem ég notaði sem keilur. Lykilatriði er að æfa og æfa og gefast aldrei upp.“

Í líftækninámi í Háskólanum á Akureyri
Samhliða atvinnumennskunni í Linköping stundar Rakel fjarnám í líftækni við Háskólann á Akureyri. Hún hóf námið sl. haust og hélt því áfram eftir að hún flutti til Linköping. Fyrsta árið er nú að baki og gekk vel. „Mér fannst aldrei vera spurning að fara í nám samhliða fótboltanum. Mér finnst mjög gaman að læra og hefur aldrei þótt leiðinlegt í skóla. Þrátt fyrir að fótboltinn hafi alltaf verið ofarlega á blaði passaði ég mig alltaf á því að sinna náminu líka vel. Mér finnst mjög gott að eiga þess kost að vera í fjarnámi frá HA. Ég var líka opin fyrir því að fara í skóla út í Svíþjóð en ég er mjög sátt við að hafa valið fjarnámið í HA, það virkar bara mjög vel. Í mínum huga var mikilvægt að fara strax í nám með boltanum og hafa þannig fasta punkta í tilverunni til hliðar við fótboltann. Það geta komið upp veikindi eða meiðsli í fótboltanum og því er gott að hafa að einhverju öðru að hverfa. Og því má ekki gleyma að sem kona í fótbolta er erfitt að lifa á honum til lengri tíma litið, sem er auðvitað leiðinleg staðreynd. Þess vegna vildi ég mennta mig samhliða því að spila fótbolta til þess að eiga þess kost að nýta þá menntun þegar ég hætti að spila fótbolta. Ég var á félagsfræðibraut í MA og því má segja að nám í líftækni sé nokkuð fjarri því sem ég lærði í MA. En þegar ég fór að kynna mér líftæknina í HA fannst mér hún svo áhugaverð að ég ákvað að skrá mig í hana. Vissulega hefði verið gott fyrir mig að hafa meiri undirbúning í t.d. efnafræði, en þetta hefur þó allt blessast og námið hefur verið virkilega áhugavert og skemmtilegt,“ segir Anna Rakel Pétursdóttir.

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is