KA sækir Leiknismenn heim í dag

Fótbolti
KA sækir Leiknismenn heim í dag
Mikið undir í Breiðholtinu (mynd: Sævar Geir)

Hasarinn heldur áfram í Pepsi Max deild karla í dag þegar KA sækir Leiknismenn heim í Breiðholtið. Með sigri blandar KA liðið sér af krafti inn í toppbaráttuna sem hefur heldur betur harnað að undanförnu auk þess sem KA hefur leikið einum leik minna en flest lið deildarinnar.

En það er stutt niður líka og andstæðingar okkar í Breiðholtinu eru aðeins þremur stigum á eftir okkur og geta því jafnað við okkur að stigum með sigri. Það má búast við hörkuleik enda hafa nýliðar Leiknis verið að spila góðan bolta að undanförnu og hafa nú þegar slegið stigamet sitt í efstu deild.

Liðin mættust síðast í Breiðholtinu sumarið 2016 en þá léku liðin í Inkassodeildinni sem nú ber nafnið Lengjudeildin. KA fór með 0-2 sigur af hólmi þar sem Ásgeir Sigurgeirsson skoraði fyrra markið strax á 6. mínútu og það var svo Halldór Hermann Jónsson sem innsiglaði sigurinn á 77. mínútu með laglegu marki. Báðir verða þeir í eldlínunni í dag en Geiri er fyrirliði og Dóri er sjúkraþjálfari liðsins.

KA vann svo einnig síðari leik liðanna sem fór fram fyrir norðan og vann að lokum afar sannfærandi sigur í deildinni sem tryggði loks félaginu aftur sæti í efstu deild þar sem liðið hefur leikið síðan.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á Domus Nova völlinn í dag en athugið þó að nýjar sóttvarnarreglur hafa tekið gildi og ekki alveg ljóst hve margir miðar eru í boði á völlinn. Bendum á miðasöluappið Stubb til að verða sér útum miða, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is