KA úr leik eftir tap í vítaspyrnukeppni

Fótbolti
KA úr leik eftir tap í vítaspyrnukeppni
Svekkjandi niðurstaða í kvöld (mynd Þórir Tryggva)

KA sótti Víking heim á Eimskipsvöllinn í kvöld í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Það mátti búast við erfiðum leik enda bæði lið í efstu deild auk þess að leikjaálagið undanfarnar vikur er farið að bíta töluvert á leikmenn.

Víkingur R. 1 - 1 KA (6-5 eftir vítaspyrnukeppni)
1-0 Nikolaj Hansen ('60, víti)
1-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('83)
1-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('120, víti)
2-2 Nikolaj Hansen ('120, víti)
2-3 Daníel Hafsteinsson ('120, víti)
3-3 Ágúst Eðvald Hlynsson ('120, víti)
3-4 Ólafur Aron Pétursson ('120, víti)
4-4 Logi Tómasson ('120, víti)
4-4 Almarr Ormarsson ('120, misnotað víti)
5-4 Júlíus Magnússon ('120, víti)
5-5 Brynjar Ingi Bjarnason ('120, víti)
6-5 Sölvi Ottesen ('120, víti)

Lið KA

Skiptingar
Þorri Mar Þórisson inn – Hrannar Björn Steingrímsson út (’67)
Ýmir Már Geirsson inn – Haukur Heiðar Hauksson út (’78)
Ólafur Aron Pétursson inn - Alexander Groven út (’85)

Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað og þá sérstaklega fyrir stuðningsmenn KA. Víkingar stjórnuðu ferðinni og reyndu hvað þeir gátu að opna vörn okkar liðs sem var föst fyrir og stóð vel fyrir sínu. Fyrir aftan vörnina var Kristijan Jajalo sem var að leika sinn fyrsta leik fyrir KA.

Það kom því ekki á óvart að ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en leikurinn opnaðist loksins í síðari hálfleik. Áfram þjörmuðu Víkingar að marki KA og á 60. mínútu uppskáru þeir vítaspyrnu sem Nikolaj Hansen skoraði úr.

KA liðið þurfti því að breyta leikplani sínu og fara að taka meiri áhættur og það má í rauninni segja að markið hafi verið jákvætt því loks kviknaði sóknarlega á strákunum. Strákarnir voru hársbreidd frá því að jafna metin strax í næstu sókn en Brynjar Ingi Bjarnason og Almarr Ormarsson fengu báðir tækifæri á að koma boltanum í netið en inn vildi boltinn ekki.

Það var svo á 83. mínútu að jöfnunarmarkið leit dagsins ljós en þá hafði KA liðið fækkað í vörninni með því að taka Hauk Heiðar útaf og setja Ými Má inná í hans stað. Það var að sjálfsögðu Hallgrímur Mar Steingrímsson sem skoraði markið eftir að Þórður Ingason í marki heimamanna hafði misst af boltanum.

Strákarnir héldu áfram að pressa og Hallgrímur Mar var ekki langt frá því að bæta við sínu öðru marki tveimur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Í uppbótartímanum átti Almarr svo skalla að marki sem Þórður sá við og því þurfti að framlengja.

KA liðið var betri aðilinn í fyrri hálfleik framlengingarinnar en tókst ekki að skora, þegar var komið í síðari hálfleik framlengingar virtist sem leikmenn beggja liða væru hálf örmagna sem er í raun eðlilegt enda langur leikur ofan í það mikla leikjaálag sem hefur verið undanfarnar vikur.

Leikurinn fór því alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem KA hóf leik. Hallgrímur Mar skoraði úr fyrstu spyrnu KA, því næst skoruðu Daníel Hafsteinsson og Ólafur Aron Pétursson. Almarr setti sína spyrnu í slánna, niður og í slánna áður en boltinn rúllaði frá markinu. Eftir talsverðan tíma ákvað dómaraparið að boltinn hefði ekki farið inn í markið þrátt fyrir að flestir á vellinum hefðu verið sammála um annað. Brynjar Ingi skoraði svo úr síðustu spyrnu KA en því miður nýttu heimamenn allar sínar spyrnur og unnu því leikinn samtals 6-5.

Bikardraumur KA er því úti þetta sumarið og það á ansi svekkjandi hátt en strákarnir mega eiga það að þeir sýndu hetjulega baráttu að koma sér aftur inn í leikinn og vera hársbreidd frá því að klára leikinn áður en farið var í vítaspyrnukeppnina. Þar snúast hlutirnir oftar en ekki um heppni og þar var lukkan ekki í liði með okkur, því miður.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is