KA úr leik í bikarnum

Fótbolti
KA úr leik í bikarnum
Mynd - Sævar Geir

KA og ÍBV mættust í dag í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á Greifavellinum á Akureyri. Engir áhorfendur voru á leiknum sökum reglna yfirvalda vegna Covid 19 faraldursins. Gestirnir úr ÍBV fóru með sigur af hólmi 1-3 eftir framlengingu.

KA 1 – 3 ÍBV

0 - 1 Jose Sito (’8)

1 - 1 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’20)

1 - 2 Víðir Þorvarðarson (’98)

1 - 3 Gary Martin (’121)

Lið KA:

Aron Dagur, Hrannar Björn, Brynjar Ingi, Mikkel Qvist, Ívar Örn, Rodrigo, Almarr,Bjarni, Hallgrímur Mar, Ásgeir og Gunnar Örvar.

Bekkur:

Kristijan Jajalo, Andri Fannar, Ýmir Már, Steinþór Freyr, Jibril Abubakar, Adam Örn og Sveinn Margeir

Skiptingar:

Sveinn Margeir inn – Bjarni Aðalsteins út (’63)

Steinþór Freyr inn – Gunnar Örvar út (’72)

Andri Fannar inn – Hrannar Björn út (’72)

Jibril inn – Ásgeir út (’100)

Arnar Grétarsson gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá jafnteflinu gegn KR í deildinni um síðustu helgi. Inn í liðið komu Aron Dagur, Almarr og Ásgeir. Gestirnir úr ÍBV byrjuðu leikinn betur og eftir aðeins átta mínútna leik átti komst Jose Sito einn upp hægri vænginn og þrumaði boltanum fyrir utan teig upp í markvinkilinn, óverjandi fyrir Aron Dag í markinu. Hreint út sagt magnað mark sem KA menn komu engum vörnum við.

Við markið steig KA liðið upp og stýrði liðið leiknum og var mun meira með boltann. Á 20. Mínútu fékk KA liðið hornspyrnu sem Hallgrímur Mar tók. Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst Hallgrími að skora beint úr hornspyrnunni yfir Halldór Pál í marki gestanna. Frábærlega gert hjá Hallgrími sem skrúfaði boltann með vinstri fætunum yfir alla og í markið. KA liðið hélt áfram að sækja meira að marki gestanna en náði ekki finna nægilegar opnanir á vörn Eyjamanna sem voru þéttir til baka og keyrðu miskunarlaust hratt í bakið á KA liðinu þegar KA tapaði boltanum. Staðan þegar að liðin gengu til búningsherbergja var 1-1.

Líkt og í fyrri hálfleik var KA liðið með frumkvæðið í þeim síðari og stýrði leiknum en gestirnir sóttu þó sem fyrr hratt í bakið á KA liðinu þegar að þeir unnu boltann.

Þegar að um hálftími var eftir af venjulegum leiktíma átti Sito góða fyrirgjöf fyrir mark KA sem Jonathan Glenn renndi sér fyrir og náði Aron Dagur að verja skot hans með fótunum og mátti engu muna að ÍBV tæki forystuna. Hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum það sem eftir lifði leiks og var því framlengt.

Gestirnir í ÍBV lágu til baka og KA liðið var meira með boltann líkt og í venjulegum leiktíma en það voru gestirnir sem brutu ísinn og gerðist það á eftir á 8 mínútna leik í framlenginunni. Þá átti Felix Örn góðan sprett upp vinstri kantinn og gaf fyrir á Víði Þorvarðarson sem átti snyrtilegt skot sem endaði í markinu og Eyjamenn komnir yfir.

Við markið duttu gestirnir enn aftar og reyndi KA liðið hvað þeir gátu að jafna metin. Næst því komst Mikkel Qvist þegar að varamaðurinn Jibril Abubakar skallaði boltann áfram á Mikkel í teignum en varnarmenn ÍBV komust fyrir skot Mikkel sem endaði í hornspyrnu.

Þegar að 120 mínútur voru liðnar og KA liðið hátt upp á vellinum átti Gary Martin góðan sprett þegar að hann keyrði einn á vörn KA liðsins og þrumaði boltanum upp í vinstra hornið og innsiglaði farseðil Eyjamanna í 8-liða úrslitin. KA liðið úr leik þetta árið gegn sprækum Eyjamönnum sem áttu sigurinn skilið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is