KA vann Þór sem og Kjarnafæðismótið

Fótbolti
KA vann Þór sem og Kjarnafæðismótið
Strákarnir sáttir með bikarinn í leikslok

KA og Þór mættust í kvöld í hreinum úrslitaleik í Kjarnafæðismótinu en leikurinn var liður í lokaumferð mótsins og dugði KA jafntefli til að tryggja sigur sinn á mótinu. Þar sem liðin leika ekki í sömu deild þá vill oft verða meira undir í leik sem þessum og var ansi góð mætingin í Bogann í kvöld.

KA 2 - 1 Þór
0-1 Bjarki Þór Viðarsson ('23) 
1-1 Elfar Árni Aðalsteinsson ('67) 
2-1 Elfar Árni Aðalsteinsson ('76) 

Leikurinn fór rólega af stað og einkenndist aðallega af því að KA hélt boltanum og reyndi að opna vörn Þórsara sem lágu ansi aftarlega og algengt að sjá alla leikmenn Þórs fyrir aftan miðju. Þrátt fyrir að hafa töluvert af boltanum gekk illa að skapa einhverja hættu.

Það var svo á 23. mínútu sem að Þórsarar tóku forystuna þegar Bjarki Þór Viðarsson kláraði snyrtilega eftir mistök í vörn okkar liðs. Leikurinn spilaðist áfram svipað, KA stjórnaði ferðinni en Þórsarar voru klárir í að sækja hratt í bakið á okkar mönnum þegar þeir unnu boltann og sköpuðu þeir nokkrum sinnum þó nokkra hættu.

Á 37. mínútu kom úrvalssókn hjá okkar liði þar sem Daníel Hafsteinsson renndi boltanum fyrir markið en Guðjón Pétur Lýðsson náði ekki nægilega kraftmiklu skoti að marki og Þórsarar sluppu með skrekkinn. Stuttu síðar áttu Elfar Árni Aðalsteinsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson gott samspil sem galopnaði vörnina og Hallgrímur slapp í gegn en Aron Birkir í marki Þórs gerði ákaflega vel í að loka á hann.

Staðan var því 0-1 fyrir Þór í hléinu og átti KA liðið klárlega töluvert inni en færin tvö undir lok fyrri hálfleiksins gáfu von um að markið lægi í loftinu. Síðari hálfleikur fór þó rólega af stað og nýttu liðsmenn Þórs nær öll tilfelli til að eyða upp tíma en sigur Þórs myndi tryggja þeim sigur á mótinu.

Þeir gátu þó lítið gert á 67. mínútu þegar KA liðið átti frábæra sókn þar sem boltinn gekk hratt á milli manna sem endaði með hnitmiðaðri sendingu inn fyrir frá Hallgrími Mar og Elfar Árni hálftæklaði boltann í netið og staðan orðin 1-1. Stuðningsmönnum KA ansi létt og nú þurftu Þórsarar að koma framar á völlinn.

Tæpum 10 mínútum síðar fékk Þorri Mar Þórisson góða sendingu inn fyrir vörn Þórsara en Aron Birkir varði frá honum, Þorri gerði vel í að ná boltanum aftur og kom honum aftur í leik. Pressa KA liðsins mikil sem endaði í að boltinn gekk út á kant á Hrannar Björn Steingrímsson sem gaf boltann vel fyrir og Elfar Árni stangaði boltann í netið.

Staðan orðin 2-1 fyrir KA og allt annað að sjá til liðsins frá meirihluta fyrri hálfleiks. Lítið markvert gerðist þó eftir markið og KA sigldi heim frekar sannfærandi sigri að lokum og vann þar með Kjarnafæðismótið með fullu húsi stiga.

KA var alls 64% með boltann í kvöld og átti 18 skot í leiknum gegn 8 hjá Þór. Þá fóru 11 skot hjá KA á markið en aðeins 3 hjá Þórsurum auk þess sem KA fékk 10 hornspyrnur gegn aðeins einni, sigurinn var því nokkuð sannfærandi að lokum þrátt fyrir erfiða byrjun.

Mörkin tvö hjá Elfari Árna tryggðu honum markakóngstitilinn á mótinu með 5 mörk en Hrannar Björn Steingrímsson var fyrir leikinn efstur með 4. Framundan er Lengjubikarinn og er fyrsti leikur KA gegn Íslandsmeisturum Vals laugardaginn 16. febrúar næstkomandi í Boganum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is