Lára Kristín Pedersen í Þór/KA

Fótbolti
Lára Kristín Pedersen í Þór/KA
Frábær viðbót við Þór/KA (mynd Hafliði Breiðfjörð)

Stjórn Þórs/KA hefur samið við Láru Kristínu Pedersen um að leika með liðinu næstu tvö keppnistímabil. Lára Kristín er öflugur miðjumaður og hefur verið lykilmaður í liði Stjörnunnar á undanförnum árum. Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, kveðst mjög ánægður með að fá hana norður.

„Ég er mjög ánægður með að fá þennan gæðaleikmann til liðs við okkar sterka hóp. Lára hefur verið einn besti miðjumaður deildarinnar undanfarin ár og hæfileikar hennar og reynsla munu nýtast mjög vel í baráttu okkar um alla þá titla sem eru í boði. Við væntum mikils af henni og hlökkum til að fá hana norður og til liðs við okkur. Ég veit að hún mun smellpassa inn í liðið hjá okkur.“

Hún kemur upphaflega úr Mosfellsbænum, spilaði með Aftureldingu/Fjölni í Pepsi-deildinni 2009 og svo Aftureldingu áfram út tímabilið 2013. Þá skipti hún í Stjörnuna og hefur verið í Garðabænum í fimm keppnistímabil. Þar vann hún tvo Íslandsmeistaratitla, 2014 og 2016, og tvo bikarmeistaratitla, 2014 og 2015.


Lára Kristín ræðir við Donna sumarið 2017 (mynd: Haraldur Ingólfsson)

Lára Kristín á samtals að baki 167 leiki í Pepsi-deildinni, bikarkeppninni, Meistarakeppni KSÍ og Meistaradeild Evrópu. Þá á hún að baki 15 leiki með U-17 landsliðinu, 15 leiki með U-19, tvo með U-23 og einn með A-landsliðinu. Við bjóðum hana velkomna í raðir Þórs/KA


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is