Metnaðarfullar breytingar hjá fótboltanum

Fótbolti

Knattspyrnudeild KA hefur gert metnaðarfullar breytingar á starfi sínu sem feljast í því að fjölga stöðugildum á skrifstofu félagsins þar sem markmiðið er að auka enn á faglegheit í kringum okkar öfluga starfs og bjóða upp á enn betri þjónustu fyrir iðkendur okkar.

Undanfarin ár hefur mikil aukning orðið á fjölda iðkenda í fótboltanum hjá okkur í KA auk þess sem afreksstarfið hefur bæði skilað félaginu titlum sem og uppöldnum leikmönnum í atvinnumennsku. Við viljum þó gera enn betur og kynnum við þá Aðalbjörn Hannesson, Garðar Stefán Nikulás Sigurgeirsson og Andra Frey Björgvinsson til leiks í þeirra nýju hlutverkum en allir eru þeir miklir félagsmenn og hafa unnið í kringum félagið undanfarin ár.

Yfirmaður knattspyrnumála - Aðalbjörn Hannesson (Alli)

Alli tekur við nýrri stöðu sem yfirmaður knattspyrnumála. Hann verður yfirþjálfari 2.-4. flokks ásamt því að koma að afreksmálum og meistaraflokk karla. Alli er íþróttafræðingur og með meistaragráðu í verkefnastjórnun. Hann er einnig með UEFA A og UEFA Elite Youth A þjálfaragráður. Alli hefur þjálfað í 17 ár, þar af 14 ár hjá KA og 3 ár hjá Breiðablik. Alli hefur einnig verið Afreksþjálfari fyrir KSÍ á Norðurlandi síðustu ár. Hans helstu verkefni eru að bera faglega ábyrgð á starfi 4. fl og eldri og leikmannaþróun afreksiðkenda. Einnig mun hann vinna náið með bæði knattspyrnustjórn og yngriflokkaráði.

Yfirþjálfari 5.-8. flokks – Andri Freyr Björgvinsson

Andri Freyr er nýr yfirþjálfari 5.-8. flokks. Andri er búinn með grunnnám í kennslufræðum og er í meistaranámi í kennslufræðum. Andri klárar UEFA B þjálfaragráðuna næsta vetur. Andri Freyr hefur þjálfað í 10 ár hjá KA. Þar hefur hann sérhæft sig í þjálfun 5.-8. flokks. Hans helstu verkefni eru að bera faglega ábyrgð á starfi 5. fl og yngri, umsjón með aðstoðarþjálfurum og að allt rúlli vel í þessum flokkum.

Verkefnastjóri knattspyrnudeildar - Garðar Stefán Nikulás Sigurgeirsson

Garðar Stefán tekur við nýrri stöðu sem verkefnastjóri knattspyrnudeildar. Garðar er fjölmiðlafræðingur og með UEFA B þjálfaragráðu. Garðar er að koma aftur til okkar eftir 2 ára pásu en áður hafði hann þjálfað í tæp 4 ár hjá KA. Hans helstu verkefni verða Stefnumótin, aðrar fjáraflanir knattspyrnudeildar, leikir meistaraflokks og þjálfun í yngri flokkum.

Alli og Andri Freyr hafa nú þegar tekið við þessum störfum en Garðar Stefán byrjar 1. júní næstkomandi. Þeir þrír munu mynda sterkt teymi sem vinnur náið með öðrum þjálfurum félagsins með því markmiði að bæta starfið enn frekar.

Knattspyrnustjórn og yngriflokkaráð er mjög ánægt með þessar ráðningar. Þær eru í takt við þann metnað sem ríkir hjá félaginu að vera í fremstu röð bæði í barna- og unglingastarfi og í meistaraflokk.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is