Myndaveislur frá leikjum KA og Þórs

Fótbolti
Myndaveislur frá leikjum KA og Þórs
KA liðið ætlar sér sigur! (mynd: Þórir Tryggva)

KA og Þór mætast í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins á morgun klukkan 13:30 í Boganum. Af því tilefni fengum við aragrúa af myndum frá Þóri Tryggvasyni ljósmyndara frá síðustu viðureignum liðanna í deildarkeppni.

Það má búst við hörkuleik á morgun en aðgangseyrir á leikinn er 500 krónur og mun allur ágóði renna óskiptur til fjölskyldu Bjarna Hrannars Héðinssonar dómara og formanns Knattspyrnudómarafélags Norðurlands. Bjarni hefur glímt við alvarleg veikindi síðustu mánuði og gengur nú í gegnum langa og stranga endurhæfingu.

KA vann heimaleik sinn sumarið 2015 með marki frá Ævari Inga Jóhannessyni strax á 5. mínútu. KA menn fjölmenntu á leikinn og var stemningin algjörlega frábær og ekki nokkur spurning að þetta snemmbúna mark hjálpaði vel í að vinna baráttuna um stúkuna. Stuttu síðar fékk Sandor Matus markvörður Þórs beint rautt spjald.


Smelltu á myndina til að skoða myndirnar frá heimasigri KA sumarið 2015

Sumrinu 2015 lauk með viðureign liðanna á Þórsvelli. KA leiddi 0-1 í hálfleik eftir sjálfsmark Þórsara og í þeim síðari gekk KA liðið frá leiknum með marki frá Ben Everson sem og öðru sjálfsmarki Þórsara og vann því leikinn 0-3. Þórsarar fengu tvö rauð spjöld í leiknum og var sigur KA aldrei í hættu.


Smelltu á myndina til að skoða myndirnar frá öruggum sigri KA á Þórsvelli sumarið 2015

KA endurtók leikinn frá sumrinu áður og vann 1-0 sigur á heimavelli sínum er KA og Þór mættust sumarið 2016. Elfar Árni Aðalsteinsson gerði eina mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks og með sigrinum tók KA afgerandi forystu á toppi Inkasso deildarinnar.


Smelltu á myndina til að skoða myndir frá heimasigri KA á Þór sumarið 2016

KA hafði tryggt sér sigur í Inkasso deildinni fyrir lokaleik sumarsins 2016 sem fram fór á Þórsvelli. Það var þó ljóst frá upphafi að KA liðið var mætt til að vinna baráttuna um bæinn því staðan var orðin 0-2 eftir einungis ellefu mínútur með mörkum frá Almarri Ormarssyni og Juraj Grizelj. Bjarki Þór Viðarsson bætti við marki í síðari hálfleik og öruggur 0-3 sigur í höfn.


Smelltu á myndina til að skoða myndir frá 0-3 sigri KA á Þórsvelli sumarið 2016


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is