Myndir frá 2-2 jafntefli Þórs/KA og Fylkis

Fótbolti
Myndir frá 2-2 jafntefli Þórs/KA og Fylkis
Eitt stig í hús í gær (mynd: Sævar Geir)

Þór/KA tók á móti Fylki í Pepsi Max deildinni í gær en búist var við hörkuleik og það varð heldur betur raunin. Okkar lið hafði fyrir leikinn tapað þremur leikjum í röð í deildinni eftir flotta byrjun en gestirnir úr Árbænum voru í 3. sætinu og voru ósigraðar.

Það var greinilegt frá fyrstu mínútu að okkar lið var klárt í slaginn og ætlaði sér aftur á sigurbrautina. Stelpurnar höfðu töluverða yfirburði í fyrri hálfleiknum og lokuðu vel á gestina. En á sama tíma gekk erfiðlega að skapa opin færi og fólst því helsta hættan í okkar leik í langskotum sem Cecilía Rán í marki Fylkis réði vel við.

Staðan var því markalaus í hléinu og þurftum við að bíða þangað til á 68. mínútu til að sjá fyrsta markið. Það gerði Margrét Björg Ástvaldsdóttir fyrir Fylki eftir að hún lék vel á Gabrielu í vörninni.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum í gær

Forysta gestanna lifði þó ekki lengi því rétt rúmri mínútu síðar jafnaði Margrét Árnadóttir metin þegar hún renndi boltanum í netið eftir að Madeline Gotta hafði fallið í baráttu við Cecilíu í markinu. Ekki ólíklegt að við hefðum fengið vítaspyrnu ef Margrét hefði ekki klárað í kjölfarið.

Þarna var leikurinn búinn að galopnast og skömmu síðar fengu gestirnir vítaspyrnu eftir að Bryndís Arna féll í teignum en ekki var gott að sjá hve mikið brot var þar á ferðinni. Úr spyrnunni skoraði Bryndís sjálf og gestirnir því aftur komnir yfir.

En rétt eins og áður voru okkar stelpur ekki lengi að svara fyrir sig og Þórdís Elva í liði Fylkis varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark eftir frábæran undirbúning hjá Madeline. Enn voru rúmar 10 mínútur eftir af leiknum og stelpurnar gerðu allt hvað þær gátu til að tryggja öll stigin þrjú en það gekk ekki og lokatölur því 2-2.

Svekkjandi niðurstaða þar sem að okkar lið var betri aðilinn í leiknum en á sama tíma á liðið mikið hrós skilið fyrir að koma tvívegis til baka eftir að hafa lent undir. Fylkisliðið er ekki þekkt fyrir að láta forystuna af hendi og ef ekki hefði verið fyrir góðan leik Cecilíu í marki þeirra hefðu stigin klárlega endað öll okkar megin.

Næsti leikur er einnig heimaleikur en KR kemur norður á þriðjudaginn og verður gaman að sjá hvort stelpurnar nái ekki að klára það verkefni með þremur stigum. Liðið okkar sýndi það í fyrstu leikjum sumarsins að það býr hellingur í liðinu og aðeins vantaði herslumuninn á að klára þennan leik með sigri.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is