Nökkvi Þeyr í læknisskoðun hjá Beerschot

Fótbolti

Nökkvi Þeyr Þórisson er á leið í læknisskoðun hjá belgíska liðinu Beerschot. Félögin hafa komið sér saman um kaupverð og ef allt gengur að óskum hjá Nökkva mun hann ganga til liðs við belgíska félagið fyrir lokun gluggans í Belgíu annað kvöld.

Nökkvi sem nýlega varð 23 ára hefur vakið gríðarlega athygli fyrir framgöngu sína með KA liðinu, þá sérstaklega á núverandi tímabili, en hann er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar með 17 mörk.

Enginn leikmaður KA hefur skorað jafn mörg mörk á einu tímabili í efstu deild en auk deildarmarkanna 17 gerði Nökkvi 5 mörk í Mjólkurbikarnum. Alls hefur Nökkvi spilað 71 leik fyrir KA í deild og bikar og gert í þeim 30 mörk.

Nökkvi kemur frá Dalvík þar sem hann vakti fljótt athygli og fór á reynslu ásamt tvíburabróður sínum, Þorra Mar, á reynslu til Hannover í Þýskalandi þar sem þeir fengu í kjölfarið samning aðeins 16 ára gamlir. Sumarið 2018 gekk hann í raðir uppeldisfélagsins þar sem hann gerði 10 mörk í 16 leikjum og var lykilmaður í liði Dalvíkur/Reynis sem vann sigur í 3. deildinni.

Í kjölfarið gekk Nökkvi ásamt bróður sínum í raðir KA þar sem hann hefur stimplað sig frábærlega inn í félagið okkar. Nökkvi er gríðarlega metnaðarfullur og leggur ákaflega mikið á sig aukalega sem hefur heldur betur skilað sér inni á fótboltavellinum. Þá er Nökkvi einnig öflugur félagsmaður og frábær fyrirmynd fyrir iðkendur okkar.

Við óskum Nökkva svo sannarlega til hamingju með þetta magnaða tækifæri og óskum honum alls hins besta í Belgíu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is