Seiglusigur KA á baráttuglöðu liði HK

Fótbolti
Seiglusigur KA á baráttuglöðu liði HK
Mikilvægur sigur staðreynd (mynd: Egill Bjarni)

KA lék sinn þriðja leik í Lengjubikarnum í dag er HK mætti norður. KA hafði svarað vel fyrir tapið gegn Íslandsmeisturum Vals um síðustu helgi með 0-5 sigri á Víkingi Ólafsvík. Gestirnir höfðu hinsvegar fullt hús stiga eftir sigra á Grindavík og Aftureldingu.

Ásgeir Sigurgeirsson virtist hafa komið KA yfir strax á upphafsmínútunum en var að lokum dæmdur rangstæður. Gestirnir voru fljótir að bregðast við, keyrðu á okkur til baka og nýttu sér það að strákunum hafði ekki tekist að stilla upp vörninni. Bjarni Gunnarsson fékk sendingu innfyrir vörnina og var ekki í neinum vandræðum með að renna boltanum í netið.

Staðan orðin 0-1 fyrir HK eftir sex mínútna leik og góð byrjun þeirra í Lengjubikarnum virtist því ætla að halda áfram. Gestirnir pressuðu okkar lið hátt upp á vellinum og það tók strákana smá tíma að finna taktinn og ná stjórninni á leiknum. Hægt og bítandi tókst það og í kjölfarið dró verulega af sóknarleik HK.

Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði loks metin með stórglæsilegu marki úr aukaspyrnu á 33. mínútu þar sem hann vippaði boltanum snyrtilega yfir varnarvegginn. Sóknarþungi KA liðsins var töluverður fram að hálfleik og líklega hefði KA átt að fá vítaspyrnu er Hallgrímur Mar var tekinn niður innan teigs en gestirnir sluppu með skrekkinn.

Staðan var því 1-1 í hléinu og áfram héldu strákarnir að leita að öðru marki í þeim síðari. HK lá aftarlega og beið eftir að geta refsað ef strákunum varð eitthvað á. Það gerðist á 59. mínútu er Ívar Örn Árnason gerði sig sekan um klaufaleg mistök er hann missti boltann innan teigs og úr varð dauðafæri sem Brynjar Ingi Bjarnason bjargaði með frábærri nauðvörn. HK vildi vítaspyrnu fyrir brot þar áður en rétt eins og KA í þeim fyrri varð þeim ekki að ósk sinni.

Ásgeir Sigurgeirsson tókst loks að koma KA yfir á 86. mínútu er hann skallaði hornspyrnu Hallgríms í netið með glæsibrag en fram að markinu hafði KA liðið heldur betur þjarmað að vörn Kópavogsliðsins og hafði markið legið í loftinu.

Þrátt fyrir ágætis tilraunir urðu mörkin ekki fleiri og KA sigldi þar með þremur mikilvægum stigum í höfn eftir ansi krefjandi leik gegn baráttuglöðu liði HK. KA átti alls 20 marktilraunir í leiknum gegn 4 hjá HK auk þess sem að KA fékk 10 hornspyrnur.

Strákarnir eru þar með komnir með 6 stig eftir fyrstu þrjá leikina í riðlakeppni Lengjubikarsins rétt eins og HK en efstu tvö liðin fara áfram í 8-liða úrslit keppninnar. Íslandsmeistarar Vals eru einnig með 6 stig en þeir mæta Víking Ólafsvík á morgun í sínum þriðja leik.

Næsti leikur er gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ á laugardaginn en það er mikilvægt fyrir okkar lið að komast áfram úr riðlinum til að fá fleiri alvöru leiki í undirbúningnum fyrir komandi sumar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is