Stórt tap gegn ÍA í undanúrslitum

Fótbolti
Stórt tap gegn ÍA í undanúrslitum
Mynd - Sævar Geir

KA beið í kvöld lægri hlut gegn Skagamönnum í undanúrslitum Lengjubikarsins 4-0 í Akraneshöllinni. Staðan í hálfleik var 2-0 heimamönnum í vil. Sem voru betri en KA á öllum sviðum í kvöld. 

ÍA 4 - 0 KA

1 - 0 Albert Hafsteinsson (’29)
2 - 0 Tryggvi Hrafn Haraldsson (’38)
3 - 0 Gonzalo Zamorano (’54)
4 - 0 Bjarki Steinn Bjarkason (’56)

Lið KA:

Aron Elí, Haukur Heiðar, Brynjar Ingi, Callum, Alexander Groven, Andri Fannar, Almarr, Guðjón Pétur, Þorri Mar, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Dagur, Ólafur Aron, Steinþór Freyr, Birgir Baldvins, Sæþór Olgeirs, Nökkvi Þeyr og Bjarni Aðalsteins.

Skiptingar:

Þorri Mar út - Steinþór Freyr inn (’46)
Callum út - Bjarni Aðalsteins inn ('65)
Haukur Heiðar út - Birgir Baldvins inn ('65)
Guðjón Pétur út - Ólafur Aron inn ('83)
Elfar Árni út - Sæþór Olgeirs inn ('90)

Liðið í dag gegn ÍA

KA og ÍA mættust í kvöld í undanúrslitum í A-deild Lengjubikarsins í Akraneshöllinni. Bæði lið voru ósigruð í Lengjubikarnum í ár og ljóst að fyrsta tap annars hvors liðsins myndi líta dagsins ljós. Bæði lið voru án þeirra leikmanna sem hafa verið valdir í yngri landsliða verkefni þessa vikuna og voru því Daníel Hafsteins og Torfi Tímóteus fjarri góðu gamni hjá KA liðinu.

Leikurinn hófst rólega og voru bæði lið að þreyfa eilítið fyrir sér. Skagamenn voru sprækir til að byrja með og voru meira með boltann. En KA fékk fínasta skotfæri þegar að stundarfjórðungur var liðin en þá átti Hallgrímur Mar skot fyrir utan teig sem endaði beint á Árna Snæ í marki ÍA.

Á 23. mínútu fengu ÍA dauðafæri eftir hornspyrnu þegar að Arnór Snær skaut boltanum yfir úr markteignum eftir hornspyrnu. ÍA liðið var með hálgert skotæði í fyrri hálfleik og lét vaða hvað eftir annað en án árangurs til að byrja með.

Eftir hálftíma leik komust heimamenn ÍA verðskuldað yfir þegar að Albert Hafsteinsson skoraði úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Laglega gert hjá Alberti sem skaut boltanum ofarlega í hægra hornið. Örstuttu seinna komust ÍA einir í gegn en Aron Elí átti flott úthlaup og komst snyrtilega á undan sóknarmanni ÍA í boltann.

Á 38. mínútu bættu heimamenn í ÍA í forystuna en þá átti Þórður Þorsteinn Þórðarson góða sendingu á Tryggva Hrafn Haraldsson sem skallaði boltann utarlega í teignum yfir Aron Elí í markinu. Staðan 2-0 fyrir ÍA í hálfleik þar sem Skagamenn voru töluvert betri en KA.

KA hóf seinni hálfleikinn af meiri krafti en þann fyrri og var liðið sprækt til að byrja með fyrstu mínútur hálfleiksins en það dugði skammt. Skagamenn bættu bara í forystuna þegar að hálfleikurinn var níu mínútna gamall. Þá átti Þórður Þorsteinn fyrirgjöf á Gonzalo Zamorano sem lék illa á vörn KA og skoraði auðveldlega af stuttu færi.

Tveimur mínútum síðar komust ÍA í 4-0 þegar Gonzalo Zamorano átti góðan sprett og gaf út í teiginn á Bjarka Stein Bjarkason sem skoraði fjórða mark ÍA. Skagamenn að sundurspila KA liðið og mikið mun betri á öllum sviðum knattspyrnunnar.

Á 73. mínútu átti Guðjón Pétur góða sendingu inn fyrir á Hallgrím Mar sem var kominn í gegn en var felldur niður en ekkert var dæmt. Heimamenn í ÍA voru þéttir til baka og fann KA liðið fá svör við leik Skagaliðsins.

Niðurstaðan 4-0 sigur fyrir ÍA þar sem KA átti ekki sinn besta leik og í fyrsta skipti í vetur þar sem KA tekst ekki að skora og fellur liðið því úr leik í undanúrslitum Lengjubikarsins annað árið í röð.

KA liðið heldur í nótt út til Antalya í Tyrklandi þar sem liðið verður við æfingar næstu tíu daga og stillir saman strengina fyrir Pepsi Max deildina. En í dag eru einmitt 37 dagar í fyrsta leik sem verður líkt og leikurinn í kvöld gegn ÍA á Skaganum þann 27. apríl.  Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is