Þegar KA vann N1 mótið í fyrsta skiptið

Fótbolti
Þegar KA vann N1 mótið í fyrsta skiptið
Frábærir fulltrúar KA í fyrsta sigurliði KA á N1

N1 mót KA í knattspyrnu er í dag stærsta yngriflokka mót landsins en þar leika strákar í 5. flokki listir sínar. Mótið var fyrst haldið sumarið 1987 og bar þá nafnið Esso-mótið og hefur því sami styrktaraðili verið bakvið mótið með okkur KA mönnum frá upphafi sem er ómetanlegt og hlökkum við til að halda áfram þeirri samvinnu.

Mótið hefur stækkað ár frá ári en á síðasta móti léku alls 204 lið og enn stefnir í stækkun mótsins næst þegar það fer fram. Gríðarlegur fjöldi leikmanna hefur tekið þátt í mótinu í gegnum árin og er einn af hápunktum yngriflokka ferils karlamegin. Það er því ansi eftirsóknarvert og merkilegt að sigra mótið og hampa bikarnum í keppni A-liða.

KA vann mótið í fyrsta skiptið sumarið 1988 en það árið tóku 20 lið þátt og komu þau víðsvegar að frá landinu. Keppt var í A og B liða keppni, mótið stóð yfir í 3 daga og var ávallt leikið á tveimur völlum samtímis, í dag er leikið linnulaust í fjóra daga á 12 völlum!

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá sigurlið KA en strákarnir eru eftirfarandi:
Efri röð frá vinstri: Gauti Laxdal þjálfari, Heimir Haraldsson, Gauti Reynisson og Matthías Stefánsson.
Neðri frá vinstri: Óli Björn Ólafsson, Orri Einarsson, Sigurður Bjarni Jónsson, Bjarni Bjarnason, Óskar Bragason og Ragnar Þorgrímsson.

KA fór í úrslitariðil í A liðakeppninni og mætti þar Þór, Stjörnunni og Aftureldingu. KA liðið vann 2-1 sigur á Þór og svo 7-0 stórsigur á Aftureldingu. Í lokaleiknum mætti liðið Stjörnunni og dugði jafntefli til að tryggja sigur á mótinu. Garðbæingar komust yfir snemma leiks en KA strákarnir jöfnuðu fyrir hálfleik. Það gekk svo á ýmsu í þeim síðari en strákarnir héldu út og tryggðu sér sigur á mótinu.

Að móti loknu var Matthías Stefánsson fyrirliði KA liðsins gripinn í viðtal, "Ég átti ekki von á að við myndum vinna þetta mót og því kom sigurinn skemmtilega á óvart og ég er ánægður".


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is