Þór/KA framlengir við 6 leikmenn

Fótbolti
Þór/KA framlengir við 6 leikmenn
Mikil gleði með nýju samingana (mynd: Palli Jóh)

Það voru svo sannarlega ánægjuleg tíðindi í gær þegar alls sex leikmenn framlengdu samninga sína við lið Þórs/KA. Þetta voru þær Arna Sif Ásgrímsdóttir, Andrea Mist Pálsdóttir, Ágústa Kristinsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Lára Einarsdóttir og Margrét Árnadóttir.

Allar hafa þær leikið stórt hlutverk með liðinu og eru nýju samningarnir stórt skref í að halda áfram þeim frábæra árangri sem Þór/KA hefur náð á undanförnum árum. Nói Björnsson formaður stjórnar Þórs/KA handsalaði samningana fyrir hönd félagsins en nýju samningarnir eru allir til ársins 2021.

Arna Sif Ásgrímsdóttir er 26 ára varnarmaður og er leikjahæst í Þór/KA með 213 meistaraflokksleiki og 43 mörk. Arna Sif á að baki 12 A-landsleiki þar sem hún hefur gert eitt mark auk þess sem hún á 40 leiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hún gerði 5 mörk. 

Andrea Mist Pálsdóttir er 20 ára miðjumaður og á að baki 93 leiki með meistaraflokki þar sem hún hefur gert 12 mörk. Andrea hefur undanfarið verið að brjóta sér leið í A-landslið Íslands og er hún þegar komin með tvo landsleiki. Þá hefur hún leikið 30 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hún hefur gert 3 mörk.

Ágústa Kristinsdóttir er 24 ára varnarmaður og hefur leikið 76 fyrir Þór/KA og hefur gert í þeim alls 5 mörk. Ágústa á einn landsleik að baki með U17 og ennfremur 5 leiki með Þór/KA í Evrópukeppnum.

Hulda Björg Hannesdóttir sóknarmaður er einungis 18 ára en hefur leikið alls 47 með Þór/KA og gert í þeim 4 mörk. Hulda.Björg á 23 landsleiki að baki með U17 og U19 sem og 5 leiki fyrir Þór/KA í Evrópukeppnum þar sem hún hefur gert 1 mark. 

Lára Einarsdóttir er 23 ára gamall varnarmaður sem á að baki 160 leiki fyrir Þór/KA og gert alls 9 mörk fyrir liðið. Lára hefur leikið 19 leiki með yngri landsliðum U17 og U19 og skorað í þeim 2 mörk. Þá hefur hún spilað 7 leiki með Þór/KA í Evrópukeppnum.

Margrét Árnadóttir er 19 ára sóknarmaður sem hefur nú þegar leikið 49 leiki fyrir Þór/KA og gert í þeim 6 mörk. Margrét hefur leikið 7 leiki með yngri landsliðum, það er með U17 og U19 og þá eru Evrópuleikirnir fyrir Þór/KA 4.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is