Þór/KA komið á blað eftir sigur á Fylki

Fótbolti
Þór/KA komið á blað eftir sigur á Fylki
Þrjú stig í hús! (mynd: Þórir Tryggva)

Þór/KA tók á móti Fylki í kvöld í fyrsta heimaleik sumarsins. Stelpurnar höfðu tapað illa fyrir sterku liði Vals í fyrstu umferð Pepsi Max deildarinnar og voru staðráðnar í að sækja sín fyrstu stig gegn nýliðum Fylkis sem höfðu unnið Keflavík í sínum fyrsta leik í sumar.

Þór/KA 2 - 0 Fylkir
1-0 Sandra Stephany Mayor Gutierrez ('46)
2-0 Andrea Mist Pálsdóttir ('88)

Leikurinn fór tiltölulega rólega af stað og ljóst að bæði lið ætluðu sér að fara af varfærni inn í leikinn. Þór/KA fékk þó dauðafæri á 10. mínútu er Andrea Mist Pálsdóttir átti frábæra sendingu inn fyrir vörn gestanna en Sandra Mayor náði ekki að finna leiðina framhjá Cecilíu Rúnarsdóttur í marki Fylkis.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn náðu stelpurnar betra og betra taki á leiknum og stýrðu leiknum. Ekki tókst þeim þó að koma boltanum í netið og staðan því markalaus er flautað var til hálfleiks. Mikil barátta var í Fylkisliðinu og ljóst að stelpurnar þyrftu að gefa allt í leikinn til að sækja sigur.

Það tók svo ekki langan tíma í síðari hálfleik til að finna opnunarmarkið en það gerði engin önnur en Sandra Mayor og það með glæsilegri hælspyrnu eftir flotta fyrirgjöf frá Andreu Mist. Þungu fargi létt af okkar liði sem og stuðningsmönnum sem voru þó nokkrir í stúkunni.

Gestirnir úr Árbænum reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin og áttu alveg sín færi á sama tíma og okkar lið var eðlilega að leita að öðru marki til að gulltryggja sigurinn. Síðasta kortérið fjaraði verulega úr sóknarleik Fylkisliðsins og eina spurningin var í rauninni hvort okkar lið næði að bæta við marki.

Það gekk tveimur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma er Andrea Mist renndi boltanum í autt netið eftir stórkostlegan samleik hjá Söndru Mayor og Margréti Árnadóttur.

2-0 sigur Þórs/KA því staðreynd og stelpurnar eru komnar á blað í deildinni. Það er klárt að Fylkisliðið er frekar öflugt og ansi líklegt til að taka stig af liðunum í toppbaráttunni. Það er því ansi gott og mikilvægt að sigla þremur stigum heim úr leiknum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is