Þór/KA úr leik eftir vítaspyrnukeppni

Fótbolti
Þór/KA úr leik eftir vítaspyrnukeppni
Háspenna lífshætta í kvöld (mynd: Sævar Geir)

Það var stórleikur í Boganum í kvöld er Þór/KA og Breiðablik mættust í undanúrslitum Lengjubikarsins. Liðin höfðu mæst nýverið í riðlakeppni Lengjubikarsins þar sem Þór/KA fór með 2-1 sigur af hólmi eftir hörkuleik. Það mátti því búast við spennuleik í kvöld sem úr varð.

Þór/KA 3 - 3 Breiðablik (Breiðablik vinnur 6-7 eftir vítaspyrnukeppni) 
1-0 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('45) 
1-1 Karólína Lea Vilhjálmsdóttir ('47) 
2-1 Karen María Sigurgeirsdóttir ('53) 
2-2 Agla María Albertsdóttir ('79) 
3-2 Lára Kristín Pedersen ('90) 
3-3 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('90, sjálfsmark)


Smelltu á myndina til að sjá fleiri myndir Sævars Geirs frá leiknum

Liðin fóru varfærnislega af stað í leikinn og tók smá tíma fyrir þau að þreifa aðeins fyrir sér áður en leikurinn opnaðist. Gestirnir björguðu á línu á 26. mínútu og í kjölfarið var mikil pressa frá okkar liði sem greinilega ætlaði sér að ná inn fyrsta markinu.

Það var smá bið eftir markinu en það kom undir lok fyrri hálfleiks þegar Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði magnað mark með því að taka boltann í fyrsta eftir hornspyrnu frá Sögu Líf Sigurðardóttur. Staðan orðin 1-0 og það sanngjarnt, þó vissulega væri erfitt fyrir Breiðablik að fá á sig mark á lokaandartökum fyrri hálfleiks.

Það tók gestina þó ekki langan tíma að jafna metin en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði með laglegu skoti rétt utan teigs. Gestirnir hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti en í staðinn fyrir að þeir næðu forystunni var það Karen María Sigurgeirsdóttir sem endurheimti forystu Þórs/KA með frábæru skoti og aftur eftir undirbúning Sögu Líf.

Í kjölfarið færðist meiri ró yfir leikinn og fannst manni sem okkar lið væri líklegra til að bæta við. En fótboltinn virkar ekki þannig og Breiðablik jafnaði metin á ný er rétt rúmar 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Agla María Albertsdóttir fylgdi eftir magnaðri vörslu hjá Bryndísi Láru og leikurinn galopinn á ný.

Það leit svo allt út fyrir að Lára Kristín Pedersen væri að klára leikinn fyrir okkar lið þegar hún skoraði gott mark eftir klafs í teignum á 91. mínútu. En því miður varð Arna Sif fyrir því óláni að fá boltann í sig og hann hrökk í eigið net rétt fyrir leikslok og því fór leikurinn í vítaspyrnukeppni.

Lára Einarsdóttir, Lára Kristín og Margrét Árnadóttir nýttu sín víti en þeim Söndru Mayor og Örnu Sif brást bogalistin og niðurstaðan varð 6-7 sigur Breiðabliks sem fer áfram í úrslitaleikinn.

Gríðarlega svekkjandi niðurstaða eftir að hafa leitt leikinn þrívegis, þó verður að líta ansi jákvætt á það að stelpurnar líta gríðarlega vel út gegn Breiðablik sem varð tvöfaldur meistari í fyrra og þrátt fyrir allar breytingarnar á hópi okkar liðs þá virðast stelpurnar vera klárar í að berjast á toppnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is