Þór/KA úr Meistaradeildinni með reisn

Fótbolti
Þór/KA úr Meistaradeildinni með reisn
Þessar mega vera stoltar! (mynd: Þórir Tryggva)

Meistaradeildarævintýri Þórs/KA lauk í dag eftir 2-0 tap gegn stórliði Wolfsburg í Þýskalandi. Wolfsburg hafði áður unnið fyrri leikinn 0-1 á Þórsvelli og fer því áfram í næstu umferð eftir 3-0 samanlagðan sigur. Það verður að segjast að þetta er mikið afrek hjá stelpunum að halda jafn vel í við jafn sterkt lið og Wolfsburg.

Wolfsburg 2 - 0 Þór/KA
1 - 0 Pernille Harder (’28)
2 - 0 Ella McLeod (’66)

Erfitt verkefni varð enn erfiðara þegar það varð ljóst að stelpurnar yrðu án þeirra Ariana Calderon, Bianca Sierra og Sandra Mayor. Þýskalandsmeistararnir pressuðu stíft frá fyrstu mínútu og voru greinilega staðráðnir í að ná marki sem fyrst og slökkva strax í vonum okkar liðs. En stelpurnar höfðu greinilega undirbúið sig vel því skipulagið á varnarleiknum var til fyrirmyndar.

Leikurinn fór að mestu leyti fram á vallarhelming Þórs/KA og börðust stelpurnar hetjulega. Markið lá þó í loftinu og á 28. mínútu skoraði besti leikmaður heims, Pernille Harder, eftir að Stephanie Bukovec hafði ekki náð að kýla boltann nægilega vel.

Þór/KA fékk líklega sitt besta tækifæri skömmu fyrir hálfleik er þær fengu hornspyrnu og datt boltinn í kjölfarið niður í teignum. Því miður tókst ekki að koma boltanum á markið og þær þýsku sluppu með skrekkinn. Staðan var því 1-0 fyrir Wolfsburg í hléinu og enn lifðu einhverjar vonir en Þór/KA færi áfram með 1-2 sigur á útivallarmörkum.

En Wolfsburg liðið var mjög einbeitt og gaf engin færi á sér. Pressan hélt áfram og var aðdáunarvert að sjá til stelpnanna okkar sem vörðust og vörðust. Aginn og skipulagið var upp á 10 en það tekur gríðarlega á að spila svona til lengdar og á 66. mínútu skoraði Ella McLeod eftir að Bukovec hafði varið frá henni en frákastið datt til McLeod sem skoraði.

Markið gerði endanlega útum leikinn en sem betur fer héldu stelpurnar áfram haus og kláruðu leikinn. Leikurinn endaði því 2-0 sem er eins og áður segir bara afrek en það er ekki langt síðan Sandra María Jessen fyrirliði féll úr leik gegn Wolfsburg með Slavia Prag samanlagt 6-1 eftir 5-0 tap í fyrri leiknum.

Þessu sumri er því lokið, þrátt fyrir titlaleysi verður að segjast að liðið spilaði frábæran bolta í flestum leikjum og var margt jákvætt. Það að komast svo alla þessa leið í sterkustu keppni í heimi og halda svona í við eitthvert besta lið heims er svo rúsínan í pylsuendanum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is