Þórdís Hrönn til liðs við Þór/KA

Fótbolti
Þórdís Hrönn til liðs við Þór/KA
Bjóðum Þórdísi velkomna! (mynd: Fotbolti.net)

Stjórn Þórs/KA og Kristianstads DFF í Svíþjóð hafa samið um að Þór/KA fái Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur á tveggja mánaða lánssamningi frá sænska félaginu. Þórdís Hrönn er á leið til landsins og hefur þegar fengið keppnisleyfi með Þór/KA. Lánssamningurinn gildir til tveggja mánaða, en á þessu tímabili er að mestu frí í sænsku úrvalsdeildinn. Möguleiki er að samningurinn verði framlengdur, en það verður skoðað þegar þar að kemur.

Þórdís Hrönn er fædd 1993 og á að baki 105 meistaraflokksleiki og skoraði í þeim 25 mörk með Stjörnunni (2016 og 2018) og Breiðabliki (2009-2013). Hún skipti yfir í sænska félagið frá Stjörnunni 1. febrúar 2019, en hafði áður verið hjá Älta IF í sænsku Eliettan 2014 og 2015. Hún á að baki fjölda landsleikja með yngri landsliðum Íslands og tvo með A-landsliðinu.

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, kveðst gríðarlega ánægður með að fá klassaleikmann eins og Þórdísi Hrönn til liðs við Þór/KA á þessum tímapunkti. "Þórdís er einn af þeim leikmönnum sem ég vildi fá fyrir þetta tímabil svo ég er mjög glaður að hún sé komin til okkar núna. Hún er mjög fjölhæf sem leikmaður og er hugsuð sem sóknarmaður inn í hópinn hjá okkur. Þórdís er örvfætt og með mjög góða tækni, auk þess sem hún er með mikla reynslu," segir Donni.

Jafnframt hefur verið gengið var frá tímabundnum félagaskiptum tveggja leikmanna frá Þór/KA yfir í Hamrana. Þetta eru þær María Catharina Ólafsdóttir Gros (2003) og Hulda Karen Ingvarsdóttir (2001), sem hefur verið í Svíþjóð undanfarið ár. María á að baki níu meistaraflokksleiki með Þór/KA í deild og bikar og hefur verið í U-16 og U-17 landsliðunum. Hulda Karen á að baki einn leik með Þór/KA og níu með Hömrunum, en hún hefur spilað í Svíþjóð undanfarna mánuði.

Þá hefur einnig verið gengið frá félagaskiptum tveggja leikmanna í Hamrana. Þær Sara Mjöll Jóhannsdóttir og Sara Skaptadóttir, sem báðar stunda nám við háskóla í Bandaríkjunum, eru komnar heim og hafa skipt yfir í Hamrana. Sara Skaptadóttir var ekki lengi að láta til sín taka, skoraði sigurmarkið í 2-1 sigri Hamranna á Fjarðabyggð/Hetti/Leikni í 2. deildinni á laugardag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is