Þriðji sigur KA á N1 mótinu kom 2019

Fótbolti
Þriðji sigur KA á N1 mótinu kom 2019
Strákarnir voru óstöðvandi! (mynd: EBF)

Strákarnir í A-liði KA bundu enda á 28 ára bið félagsins eftir sigri á N1 mótinu síðasta sumar þegar þeir unnu sannfærandi sigur á mótinu. Strákarnir léku við hvurn sinn fingur á mótinu og unnu alla 10 leiki sína. 

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá sigurlið KA.
Efri röð frá vinstri: Óskar Arnór Morales Einarsson, Sigursteinn Ýmir Birgisson, Askur Nói Barry og Jóhann Mikael Ingólfsson.
Neðri röð frá vinstri: Andri Valur Finnbogason, Aron Daði Stefánsson, Mikael Breki Þórðarson og Kristján Breki Pétursson.


Skemmtilegt myndband frá mótinu í fyrra

Mótið var gríðarlega stórt í umfangi og er í raun Íslandsmótið í 5. flokki en alls kepptu 204 lið á mótinu sem heldur enn áfram að stækka. KA liðið hóf mótið á að vinna alla þrjá leiki sína í forkeppni A og B liða og vann svo sannfærandi sigur í riðlinum sínum með markatölunni 19-4.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá úrslitaleik strákanna

Í 8-liða úrslitum unnu strákarnir torsóttan 1-0 sigur á Stjörnunni og mættu því KR í undanúrslitum. KA liðið lék gríðarlega vel og vann að lokum 4-0 sigur og sætið í úrslitaleiknum tryggt. Þar mættu þeir liði Vals sem einnig hafði unnið alla leiki sína og var mikil eftirvænting eftir leiknum.


Óskar Morales var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins

Þrátt fyrir mikinn fjölda áhorfenda og mikilvægi leiksins var ekki að sjá að strákarnir væru stressaðir því þeir tóku fljótt öll völd á vellinum og þjörmuðu að liði Vals. Sigur KA liðsins var í raun aldrei í hættu og að lokum vannst 4-0 sigur og gríðarlegur sigurfögnuður braust út.

Löng bið KA eftir sigri á mótinu því loks á enda og skipuðu strákarnir sér sess í sögu félagsins ásamt drengjunum frá árunum 1988 og 1991.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is