Þriðji stórsigur KA á Kjarnafæðismótinu

Fótbolti
Þriðji stórsigur KA á Kjarnafæðismótinu
Markaregn KA heldur áfram (mynd: Sævar Geir)

KA og Magni mættust í gærkvöldi í Kjarnafæðismótinu en fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið sína leiki og eftir 2-2 jafntefli Þórs gegn Völsung fyrr um daginn var ljóst að liðið sem færi með sigur af hólmi í leiknum myndi taka bílstjórasætið í baráttunni um sigur á mótinu.

KA 6 - 0 Magni
1-0 Steinþór Freyr Þorsteinsson ('49)
2-0 Almarr Ormarsson ('53)
3-0 Elfar Árni Aðalsteinsson ('56)
4-0 Steinþór Freyr Þorsteinsson ('58)
5-0 Þorri Mar Þórisson ('67)
6-0 Hrannar Björn Steingrímsson ('89)

Grenvíkingar hófu leikinn á hápressu sem virtist koma KA liðinu á óvart og tók það upphafsmínútur leiksins fyrir KA liðið að ná stjórn á leiknum. Eftir það féllu gestirnir til baka og KA stjórnaði ferðinni án þess þó að skapa sér alltof mikið af færum. Það fór svo að fyrri hálfleikurinn var markalaus þó mark hjá KA lægi í loftinu.

Biðin var ekki löng í þeim síðari því Steinþór Freyr Þorsteinsson stangaði fyrirgjöf frá Ými Má Geirssyni í netið á 49. mínútu og markið galopnaði leikinn. Magnamenn þurftu að reyna að færa sig ofar á völlinn og í kjölfarið gekk KA liðið á lagið.

Almarr Ormarsson tvöfaldaði forystuna fjórum mínútum síðar er hann fylgdi á eftir skalla frá Elfari Árna eftir hornspyrnu og KA liðið komið í góða stöðu. Ekki þurftum við að bíða lengi eftir næsta marki því Elfar Árni Aðalsteinsson skallaði boltann í netið á 56. mínútu aftur eftir fyrirgjöf frá Ými Má.

Þorri Mar Þorsteinsson kom inn á eftir markið og hann var ekki lengi að tæta í sundur vörn Magnamanna og Steinþór Freyr rak smiðshöggið á góða sókn með hnitmiðuðu skoti og staðan skyndilega orðin 4-0 fyrir KA og aðeins 13 mínútur búnar af síðari hálfleik.

Þorri skoraði svo sjálfur tæpum tíu mínútum síðar er hann fékk úrvalssendingu inn fyrir vörnina frá Ými Má sem lagði þarna upp sitt þriðja mark í leiknum og Þorri kláraði af stakri snilld.

Leikurinn datt svo aðeins niður í kjölfarið enda úrslitin svo sannarlega ráðin en Hrannar Björn Steingrímsson náði að bæta við einu marki undir lok leiks er hann fékk góða fyrirgjöf frá Ólafi Aroni Péturssyni, átti skalla sem Steinar í marki Magna varði en Hrannar fylgdi á eftir og sá til þess að KA vann 6-0 sigur.

Þriðji stórsigur KA liðsins staðreynd í Kjarnafæðismótinu en fyrir leikinn í gær hafði KA unnið 8-0 sigra á bæði Völsung og KA 2. KA á því enn eftir að fá á sig mark í mótinu og hefur á sama tíma gert 22 mörk í leikjunum þremur. Næsti leikur er gegn Leikni Fáskrúðsfirði í Boganum á sunnudaginn og hvetjum við ykkur að sjálfsögðu til að mæta á þann leik.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is