Tilnefningar til Böggubikarsins 2022

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak

Böggubikarinn verður afhendur í níunda skiptið á 95 ára afmæli KA í janúar en alls eru sex ungir og öflugir iðkendur tilnefndir fyrir árið 2022 frá deildum félagsins.

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Tilnefnd í ár eru eftirfarandi:

Blakdeild KA tilnefnir Amelíu Ýr Sigurðardóttir til Böggubikarsins í ár. Amelía æfir og spilar sem uppspilari hjá meistaraflokki KA sem er handhafi allra titlanna í blaki kvenna.

Framfarir hjá Amelíu síðustu ár hafa verið gríðarleg. Hún var valin í U19 ára landsliðið sem keppti á Norðurlandamóti sem haldið var í október þar sem liðið stóð sig af mikilli prýði. Amelía gefur liðinu mikið með sinni baráttu gleði og ákveðni og gerir það hana að frábærri fyrirmynd fyrir yngri iðkendur blakdeildarinnar. Hún er dugleg að mæta á æfingar og leggur sig ávallt 100 prósent fram á hverri æfingu sem endurspeglar góðan árangur og miklar framfarir.

Agnes Vala hefur sýnt gríðarlega þrautseigju innan sem utan vallar síðustu ár. Hún hefur komið sterk inn í meistaraflokk kvenna og hefur hún lagt sig gríðarlega fram og komið sér inn í stórt hlutverk í okkar flotta liði.

Agnes vakti verðskuldaða athygli þegar hún fór mikinn í vörn gegn yfirburðarbest mannaða liði landsins, Val. Það skiptir hana engu máli hvað leikmaðurinn á móti henni heitir né hversu marga landsleiki hún hefur spilað.

Agnes er gríðarlega fylgin sér, æfir vel og leggur sig alltaf fram. Hún er virkilega traustur liðsfélagi og stendur upp fyrir öðrum leikmönnum þegar þannig ber við. Í vetur hefur hún þjálfað yngri flokka félagsins með miklum sóma.

Dagur Árni Heimisson er einn efnilegasti leikmaður landsins en hann var mikilvægur hluti af liði 4. flokks KA sem vann allt sem í boði var í síðasta vetur og stóð því uppi sem Íslands-, bikar og deildarmeistari. Til að kóróna tímabilið vann liðið loks Partille Cup í B16 ára flokki en þar keppa sterkustu lið á Norðurlöndum og eins og áður var Dagur Árni í lykilhlutverki.

Dagur Árni hefur sýnt það bæði innan vallar sem utan hvaða dreng hann hefur að geyma. Duglegur og umfram allt mikill liðsmaður. Hann er duglegur á æfingum og stundar sína íþrótt að mikilli kappsemi. Þá er hann afar úrræða góður en jafnframt mikill liðsfélagi. Dagur hefur vaxið mikið að undanförnu og í vetur hefur hann verið að stíga sín fyrst skref með meistaraflokki aðeins 16 ára gamall.

Birkir er öflugur júdómaður sem hefur nú þegar tekið þátt í nokkrum landsliðsverkefnum. Haldi hann áfram rétt á spilunum getur hann náð ansi langt í íþróttinni. Birkir er iðinn og duglegur við að bæta sig, bæði hvað varðar tækni og styrk, ásamt því að vera hvetjandi og duglegur við að leiðbeina yngri iðkendum á æfingum og hjálpa þeim að þróa færni sína.

Ísfold Marý er vel spilandi sóknarsinnaður miðjumaður sem spilaði upp alla yngriflokka hjá KA en spilar nú í sameiginlegu liði meistaraflokks Þórs/KA. Ísfold hefur nú þegar spilað 45 leiki í efstudeild kvenna og skorað í þeim eitt mark. Ísfold spilaði 6 leiki fyrir U18 og U19 ára landslið Íslands á þessu ári og skoraði í þeim eitt mark.

Ísfold sinnir æfingum af miklum krafti, hefur gott hugarfar og leggur mikinn metnað í að bæta sig sem knattspyrnukonu. Hún er því yngri iðkendum félagsins góð fyrirmynd. Það verður áhugarvert að fylgjast með henni á komandi sumri þar sem hún hefur alla burði til að koma sér inn í enn stærra hlutverk í meistaraflokki Þórs/KA.

Ívar Arnbro átti virkilega gott ár en þrátt fyrir að vera einungis 16 ára þá var hann þriðji markmaður meistaraflokks KA í knattspyrnu sem endaði í 2. sæti í Bestu deildinni. Ívar var einnig lykilmaður í 3. flokki KA þar sem hann og liðsfélagar hans urðu Bikarmeistarar og komust í 8-liða úrslit á Gothia Cup í Svíþjóð. Ívar er aðalmarkmaður U17 ára lið Íslands og spilaði hann sjö landsleiki á árinu. U17 ára liðið komst áfram upp úr undanriðlum EM og mun því Ívar keppa í milliriðlum EM næsta vor.

Ívar er mjög vel liðinn meðal liðsfélaga enda kemur hann fram af virðingu. Ívar er mjög duglegur og er hann með framúrskarandi æfingasókn sérstaklega þegar horft er í það að hann býr inn í sveit og því talsvert meiri fyrirhöfn að koma sér á æfingar fyrir hann en aðra. Eitt sumarið hjólaði hann frá Hrafnagili á æfingar á meðan jafnaldrar hans fengu far á milli hverfa á Akureyri. Þetta lýsir Ívari ágætlega en hann tekur öllum verkefnum með jafnaðar gleði og dugnaði.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is