Tilnefningar til Böggubikarsins, þjálfara og liða ársins

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak
Tilnefningar til Böggubikarsins, þjálfara og liða ársins
Arnór, Jóna og Rakel hlutu Böggubikarinn í fyrra

Böggubikarinn verður afhendur í sjöunda skiptið á 93 ára afmæli KA í janúar. Alls eru sjö ungir iðkendur tilnefndir fyrir árið 2020. Þá verður í fyrsta skiptið valinn þjálfari og lið ársins hjá félaginu og eru 6 lið og 8 þjálfarar tilnefndir til verðlaunanna.

Böggubikarinn

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Tilnefnd í ár eru eftirfarandi:

Blakdeild - Sölvi Páll Sigurpálsson

Sölvi Páll kom haustið 2019 til KA frá Þrótti Nes. Sölvi hefur spilað sig inn í meistaraflokkslið KA sem kantsmassari og er að verða einn af okkar efnilegustu leikmönnum. Hann er til fyrirmyndar utan sem innan vallar og er með gríðarlegan áhuga á íþróttinni. Hefur verið í yngri landsliðinum, en ekki hefur verið farið í neinar ferðir á þessu ári útaf Covid. Hann er ungur og efnilegur leikmaður sem á framtíðina fyrir sér. Sölvi hefur orðið Ofurbikarmeistari BLÍ haustið 2020 sem og Meistari Meistaranna haustið 2019 með KA.

Blakdeild - Jóna Margrét Arnarsdóttir

Jóna Margrét Arnarsdóttir er 17 ára uppalin KA kona sem spilar og æfir með meistaraflokki KA í blaki. Hún hefur þrátt fyrir ungan aldur, æft með meistaflokknum frá árinu 2016, þá einungis 12 ára gömul. Hún hefur átt fast sæti í meistaraflokksliði KA undanfarin fjögur til fimm ár. Jóna Margrét var lykilleikmaður í KA liðinu þegar þær unnu deildarmeistaratitilinn á nýliðnu tímabili, því miður var ekki hægt að klára tímabilið vegna covid – 19 veirunnar, og þess vegna náðist ekki að spila um Íslandsmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn. Á árinu var hún kosin uppspilari ársins sem og efnilegasti leikmaðurinn í Mizunodeildinni. Jóna Margrét byrjaði einnig að þjálfa yngstu krakkana (U-10) í haust og stendur sig vel þar. Jóna Margrét fór með A-landsliðinu í blaki til Lúxemborgar á Novotel cup um áramótin þar sem hún kom inná í öllum leikjunum og stóð sig með prýði, en þar vann liðið til bronsverðlauna. Ekki voru farnar fleiri landsliðsferðir á þessu ári vegna kórónuveirunnar. Það er morgunljóst að Jóna Margrét á framtíðina fyrir sér á blakvellinum en hún er ekki einungis sterkur leikmaður heldur einnig gríðarlega mikilvæg fyrir liðsheildina.

Handknattleiksdeild - Hildur Lilja Jónsdóttir

Hildur Lilja er einstakt dæmi um leikmann sem hefur allt með sér. Hún er að springa úr hæfileikum, vill sífellt læra meira og leggur einstaklega hart að sér í einu og öllu. Að auki býr hún yfir þeirri náðargáfu að hafa tvö eyru sem hún notar til að hlusta og læra. Hennar helsti löstur er að hún vill æfa of mikið og erfitt að fá hana til að hætta að æfa ef þannig ber við. Hún hefur virkilega háa tilfinningagreind, sérstaklega ef litið er til þess að hún er ekki eldri en hún er. Hún skynjar umhverfi sitt einstaklega vel, leggur sig fram við að öllum líði vel á æfingu og veitir þeim skjól og styrk sem á þurfa að halda. Innan félagsins leggur hún sig 100% fram við öll þau störf sem óskað er af henni, þjálfar yngri krakka og nýtur sín gríðarlega vel þar. Síðastliðið keppnistímabil þá í 4.flokki sem varð deildarmeistari í 2.deild, var hún einnig í stóru hlutverki í 3.flokks liði KA/Þórs sem náði þeim frábæra árangri að komast alla leið í bikarúrslit. Þá var Hildur valin í U-16 landsliðið í sumar og spilaði sína fyrstu landsleiki í Færeyjum.

Handknattleiksdeild - Ísak Óli Eggertsson

Ísak hefur bætt sig gríðarlega á síðustu tveimur árum með dugnaði og metnaði. Hann var verðlaunaður með því að vera valinn í U-16 ára landsliðshóp á árinu en hann er einkar frambærilegur handboltamaður og getur heldur betur náð langt í greininni haldi hann áfram á sömu braut. Ísak er flott fyrirmynd, mætir á allar æfingar og gerir allt sem þjálfarinn biður hann um. Hann er einnig frábær liðsmaður og hvetur liðsfélaga sína áfram með jákvæði. Hann er gríðarlega ósérhlífinn og er alltaf tilbúinn að hjálpa til við hin ýmsu störf innan félagsins. Auk þess að æfa vel þá er hann einnig að þjálfa yngri krakka félagsins og gerir það mjög vel og er mjög vel liðinn þar.

Júdódeild - Hannes Snævar Sigmundsson

Hannes hefur æft júdó frá blautu barnsbeini og lengst af hér á Akureyri, fyrir utan eitt ár í Þýskalandi, og er til fyrirmyndar á öllum sviðum. Félagslega sér hann til þess að það sé ekki langt í húmor og gleði, en aldrei á kostnað einbeitingar og vandvirkni þegar kemur að því að leggja inn vinnu og erfiði. Hannes er einstaklega góður júdómaður tæknilega og hefur í vetur verið að styrkja sig með aukaæfingum í styrk sem og þreki. Aukinn styrkur ofan á framúrskarandi tækni hefur komið honum á annað stig í íþróttinni og með því hefur hann sýnt að það vantar ekkert upp á metnað og vinnusemi, sem er grundvöllur fyrir því að ná langt. Hann rífur með sér aðra iðkendur á aukaæfingar og er það hugarfar smitandi fyrir íþróttafélagið sem heild. Hann er lykil iðkandi sem slíkur og byggjast félög upp í kringum þannig einstaklinga. Einnig er hann duglegur að leiðbeina yngri iðkendum á æfingu og hefur hjálpað þeim að þróa færni sína hraðar og betur fyrir vikið. Hannes er að banka á dyrnar á landsliðinu og á heima á öllum mótum á norðurlöndum sem öflugur keppandi sem er að bæta sig með hverri æfingu og hefur í raun engin takmörk fyrir því hversu langt hann getur náð. Hann hefur sýnt að hann hefur metnaðinn og vinnusemina til að gera alla þá aukavinnu sem þarf til að ná árangri. Hannes er iðkandi sem bætir ekki einungis aðra á æfingu, heldur auðveldar hann starf mitt sem þjálfara og það eitt og sér er gulls í gildi. Með stuðningi þjálfara, íþróttafélagsins og samfélagsins okkar mun Hannes halda áfram dafna sem íþróttamaður, einstaklingur og leiðtogi.

Knattspyrnudeild - Lilja Björg Geirsdóttir

Lilja Björg er KA-maður í húð og hár. Lék upp alla yngri flokka KA og í kjölfarið með Þór/KA og Hömrunum. Hún er grjótharður varnarmaður og flottur leiðtogi innan sem utan vallar. Hún er frábær liðsfélagi og góð fyrirmynd enda hefur hún mikinn metnað. Öll þau verkefni sem hún tekur sér fyrir hendur gerir hún eins vel og hægt er. Í sumar var hún fyrirliði Hamranna í 2. deild og stýrði hún liðinu vel. Hún lék 14 leiki í deild og bikar. Hamrarnir eru varalið Þór/KA sem gegnir mikilvægu hlutverki í kvennaboltanum á Akureyri.

Knattspyrnudeild - Sveinn Margeir Hauksson

Sveinn Margeir er Dalvíkingur sem kom fyrst til félagsins 14 ára en eftir 3. fl fékk hann dýrmæta reynslu með meistaraflokki Dalvíkur/Reynis áður en hann kom aftur í KA haustið 2019. Hann er sóknarsinnaður miðjumaður sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni. Hann er tæknilega góður með góðar sendingar og skot. Utanvallar er hann til fyrirmyndar, hugsar vel um sig og kemur vel fyrir. Sveinn Margeir þeytti frumraun sína í Pepsi Max deildinni í sumar. Hann byrjaði í litlu hlutverki að fá mínútur hér og þar en með góðri frammistöðu vann hann sér inn sæti í byrjunarliðinu sem hann hélt þangað til mótið var blásið af. Hann spilaði samtals 16 leiki í deild og 2 leiki í bikar og skoraði eitt mark í sumar.

Lið ársins

Blakdeild - Meistaraflokkur kvenna

Meistaraflokkur kvenna í blaki vann deildarmeistaratitilinn og ofurbikarinn á síðasta tímabili en það voru einu titlarnir sem hægt var að vinna vegna covid. Stelpurnar hafa sýnt með miklum aga og dugnaði að þær eru eitt besta blakliðið á landinu síðustu ár og urðu Íslands-,Bikar- og Deildarmeistarar tímabilið þar áður. Þegar eldri leikmenn detta út koma nýjar og efnilegar stelpur inn og fylla í spor þeirra fyrrnefndu.

Handknattleiksdeild - Meistaraflokkur kvenna

Meistaraflokkur kvenna í KA/Þór náði þeim frábæra árangri á árinu 2020 að komast í bikarúrslit í fyrsta skiptið í sögu félagsins. Þar beið liðið lægri hlut gegn stórliði Fram eftir hetjulega baráttu. Stutt er síðan KA/Þór skiptist á að leika í utandeild og Íslandsmóti og hefur verið unnið gríðarlega gott starf í kringum liðið á undanförnum árum. Stelpurnar hófu svo núverandi tímabil á því að hefna fyrir tapið í bikarúrslitunum og lögðu Fram að velli í leik Meistara meistaranna og tryggðu þar sem fyrsta titilinn í sögu liðsins. Þá er liðið í topp 5 í Olísdeildinni og ætlar sér í úrslitakeppnina í vor ef covid leyfir.

Handknattleiksdeild - 4. flokkur karla yngri

Þessi hópur drengja hefur ekki tapað nema einum handboltaleik undanfarin þrjú ár. Þeir stóðu uppi sem deildarmeistarar er mótið var flautað af í vor vegna covid og voru nýbúnir að tryggja sér bikarmeistaratitilinn með fræknum sigri í Laugardalshöllinni. Þeir hefðu eflaust gert harða atlögu að Íslandsmeistaratitilinum hefði það verið í boði. Samstilltur hópur sem getur náð langt í handboltanum á næstu árum.

Knattspyrnudeild - 4. flokkur karla

Strákarnir í 4. flokki gerðu mjög vel sumarið 2020. A-lið flokksins varð Íslandsmeistari eftir sigur á Stjörnunni í úrslitaleik á Greifavellinum. Styrkur Íslandsmeistarana er hugarfar, metnaður, samvinna, samspil, einstaklingshæfileikar og hversu margir öflugir drengir eru í flokknum gerði það að verkum að þeir voru fremstir meðal jafningja í sumar. Titillinn var hápunktur flokksins en bakvið hann voru allir 50 drengirnir sem voru til fyrirmyndar í einu og öllu frá fyrsta degi á tímabilinu. Strákarnir tóku vel á því hvort sem um var að ræða á fótboltaæfingum, leikjum eða í covid-pásunni í vor.

Knattspyrnudeild - 6. flokkur karla

Strákarnir í 6. flokki voru heldur betur flottir á árinu 2020. Flokkurinn var fjölmennasti flokkur félagsins en 70 efnilegir knattspyrnudrengir æfðu og léku með flokknum. KA var með fjögur öflug eldra árs lið á Orkumótinu í Vestmannaeyjum. Hápunkturinn á mótinu og sumrinu var þegar að KA-1 vann úrslitaleikinn um Orkumótstitilinn í æsispennandi leik gegn HK þar sem eina mark leiksins var svo gott sem flautumark hjá okkar mönnum. En okkar menn stóðu sig ekki einungis vel í Eyjum en þeir fóru í skemmtilega ferð til Reykjavíkur í febrúar, yngra árið spiluðu flottan fótbolta á Set-mótinu í júní og í júlí var allur flokkurinn í markastuði á Goðamótinu.

Knattspyrnudeild - 6. flokkur kvenna

Stelpurnar í 6. flokki voru virkilega öflugar á árinu 2020. Hópurinn saman stóð af miklum snillingum innan sem utanvallar en um 40 efnilegar knattspyrnustúlkur æfðu með flokknum. KA var með sex vel spilandi og skemmtileg lið úr 6. flokki á Símamótinu. Hápunkturinn á mótinu og sumrinu var þegar að KA-1 vann öruggan sigur á ÍR í úrslitaleiknum um Símamótstitilinn.
Stelpurnar stóðu sig einnig virkilega vel á Goðamótinu í byrjun tímabilsins og Steinullarmóti Tindastóls í júní og eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér.

Þjálfari ársins

Blakdeild - Miguel Mateo Castrillo

Miguel Mateo Castrillo hefur þjálfað kvennalið KA síðan árið 2018 og unnið með þeim fimm titla. Á síðasta tímabili vann liðið Mizunodeildina og ofurbikarinn en því miður voru ekki fleiri titlar í boði það tímabilið vegna covid. Mateo hefur náð gríðarlega góðum árangri með liðið sem og laðað til KA nýja leikmenn bæði erlenda sem innlenda sem er gríðarlega dýrmætt fyrir liðið. Hann sýnir mikinn áhuga af þjálfun og má það bæði sjá utan sem innan vallar, fyrir leiki er hann búinn teikna upp allar mögulegar útkomur leiksins og sést öll sú vinna á titlunum sem safnast hefur eftir komu hans.

Blakdeild - Paula del Olmo Gomez

Paula hefur komið sterk inn í þjálfun yngri flokka KA í blaki en síðasta vetur sá hún um þjálfun nánast allra yngri flokka auk þess að vera annar af þjálfurum 1. deildarliðs KA. Með tilkomu Paulu hefur iðkendafjöldinn í blakinu aukist gríðarlega enda er hún mjög vinsæl meðal sinna iðkenda. Hún sýnir mikinn metnað í starfi sínu og sinnir því af ákafa. Gott dæmi um styrkleika hennar sem þjálfara er að á síðasta krakkablakmóti voru heil 10 lið frá KA að keppa.

Handknattleiksdeild - Heimir Örn Árnason og Stefán Árnason

Heimir og Stefán eru tilnefndir saman frá handknattleiksdeild KA þar sem þeir þjálfa saman 4. flokk karla sem náði ótrúlega góðum árangri síðasta vetur. Yngra árið í 4. flokki síðastliðinn vetur hefur ekki tapað nema einum leik undanfarin þrjú ár og þegar mótið var flautað af í vor vegna covid voru þeir deildarmeistarar og nýorðnir bikarmeistarar. Heimir og Stefán eru frábærir saman með þennan aldur drengja og sýna mikinn metnað í sínum störfum. Þeir nýta allar auka mínútur til þess að taka auka æfingar með flokkinn sem sýnir sig best á árangri hans. En eins og vitað er að þá er árangur ekki allt. Góður mórall er í flokknum sem þeir þjálfa og töluverður agi. Hópurinn er vel samanstilltur og þeir eru ekki aðeins að ala upp flotta handboltamenn heldur einnig frábæra KA-menn!

Júdódeild - Adam Brands Þórarinsson

Adam hefur gefið blóð, svita og tár í júdódeild KA og sem þjálfari sem gefur part af sjálfum sér hverjum einasta iðkanda þá sést það á þeim sem hann hefur kennt. Það er merki um góðan þjálfara þegar hann sést í tækni og hreyfingum iðkenda sinna en án þess þó að steypa alla í sama mót þá finnur hann sérstöðu hvers einstaklings fyrir sig og skerpir á styrkleikum þeirra. Frá Adam hafa komið ótal Íslandsmeistarar og landsliðsmenn og stöðug bæting hjá þeim sem hafa notið góðs af leiðsögn hans, hvort sem viðkomandi er 6 ára eða 47 ára. Adam lét af störfum eftir vorönn og eru engar ýkjur að segja að júdó á Akureyri væri ekki í þeirri mynd sem það er í dag án hans, ef það væri þá eitthvað yfir höfuð, og stendur júdódeild KA honum ævinlega í þakkarskuld fyrir óeigingjarnt starf hans.

Júdódeild - Berenika Bernat

Berenika hefur náttúrúlega leiðtoga hæfileika sem hafa nýst henni vel í starfi þjálfara, sem í bland við næmni á þörfum hvers einstaklings fyrir sig, hefur skapað góða heild stelpna á aldrinum 10 til 14 ára. Hópur sem hefur farið stækkandi og sýnt miklar bætingar síðan Berenika tók við og leitt áfram í gegnum sorgir og sigra. Í íþrótt þar sem erfiðara reynist að fá stúlkur til að taka þátt og verða partur af hefur Berenika skapað öruggt umhverfi með festu og gjafmildi í senn sem hefur leitt til þess að þessi hópur hefur náð að festast í sess og blómstra.

Knattspyrnudeild - Aðalbjörn Hannesson

Alli hefur þjálfað yngriflokka KA í knattspyrnu síðan 2006 fyrir utan þriggja ára stopp hjá Breiðablik 2010-2013. Alli er einkar natinn við yngstu iðkendur félagsins, sem og elstu en hann er mjög metnaðarfullur og hefur sinnt sínu starfi að mikilli alúð frá því að hann tók við starfi yfirþjálfara yngriflokka KA. Alli þjálfaði strákana í 4. og 5. flokki tímabilið 2019/2020 og í haust tók hann við strákunum í 7. flokki og krökkunum í 8. flokki. Alli er einnig yfirþjálfari yngri flokka KA sem náðu sínum besta árangri frá upphafi síðastliðið sumar ef horft er í árangur á mótum. Hans helsti árangur á vellinum var að stjórna strákunum í 4. flokki karla A-liða til Íslandsmeistaratitils og strákunum í 6. flokki til sigurs á Orkumótinu í Vestmannaeyjum.

Knattspyrnudeild - Andri Freyr Björgvinsson

Andri Freyr hefur þrátt fyrir ungan aldur þjálfað yngriflokka KA í knattspyrnu síðan 2012. Andri Freyr er öflugur þjálfari og vel liðinn af iðkendum og öðrum þjálfurum félagsins. Hann er metnaðarfullur, duglegur og fær þjálfari sem nær vel til iðkenda enda alltaf hress og kátur. Andri Freyr þjálfaði stelpurnar í 5. og 6. flokki og krakkana í 8. flokki tímabilið 2019/2020. Í haust hélt hann áfram með stelpurnar í 5. og 6. flokki ásamt að því að þjálfa strákana í 7. flokki. Hans helsti árangur sumarið 2020 var að stjórna stelpunum í 6. flokki til sigurs á Símamótinu. Hann gerði einnig mjög vel með stelpurnar í 5. flokki kvenna sem voru virkilega öflugar í Vestmannaeyjum og á Íslandsmótinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is