Tilnefningar til þjálfara ársins 2022

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak

Alls eru sjö þjálfarar eða þjálfarapör tilnefnd til þjálfara ársins hjá KA fyrir árið 2022. Þetta verður í þriðja skiptið sem verðlaun fyrir þjálfara ársins verða veitt innan félagsins og verða verðlaunin tilkynnt á 95 ára afmæli félagsins í byrjun janúar.

Deildir félagsins tilnefna eftirfarandi þjálfara:

Andri Freyr átti enn eitt titlaárið í ár en flokkarnir hans áttu hreint út sagt stórbrotið sumar. Stelpurnar í 5. flokki unnu TM mótið í Vestmannaeyjum sem er stærsta mótið í þeim aldursflokki og enduðu í 2. sæti A-riðils á Íslandsmótinu. Stelpurnar í 6. flokki stigu mjög mikið upp í sumar og komst A-lið flokksins í undanúrslit á Símamótinu þar sem þær voru óheppnar með úrslitin.

Andri Freyr var einnig með eldra árið í 7. flokki drengja sem hann stýrði virkilega vel en sá hópur er með marga duglega drengi. Andri hefur þann kost að geta tvinnað metnað og gleði saman. Þannig nær hann að búa til góða liðsheild af KA-krökkum sem hafa mikla ánægju á að stunda knattspyrnu en einnig metnað að gera vel. Hann er því mjög vel liðinn þjálfari af iðkendum og öðrum þjálfurum félagsins.

Elvira kom ný til starfa hjá júdódeild KA í ágúst mánuði og fór strax að setja mark sitt á starf deildarinnar. Hún hefur komið með nýjar áherslur og sýn inn í starfið og skín metnaðurinn af öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Elvira hefur verið óspör við að kenna og miðla af þekkingu sinni til okkar ungu og efnilegu þjálfara sem svo sannarlega mun nýtast okkur vel.

Elvira hefur leitt með sóma það starf okkar við að ná aftur vopnum júdódeildarinnar eftir erfitt covid tímabil sem lék deildina illa. Ásamt því að stýra faglegu starfi og þjálfun hefur Elvira verið dugleg við að kynna judo í skólum bæjarins.

Hallgrímur Jónasson tók við stjórn meistaraflokks KA í knattspyrnu fyrir úrslitakeppni Bestu deildarinnar þar sem hann stýrði liðinu í 2. sæti. Þar á undan var Haddi hægri hönd Arnars Grétarssonar í þjálfarateyminu. Haddi á því ansi stóran þátt að liðið náði sínum besta árangri frá Íslandsmeistarasumrinu 1989 og tryggði sæti í Evrópukeppni með 2. sæti í deildinni og komst í undanúrslit í bikarkeppninni.

KA liðið fékk á sig næst fæst mörk í deildinni en þeir sem þekkja til vita að Haddi á stóran þátt í að skipuleggja varnarleikinn. Á tímabilinu var Haddi einnig afreksþjálfari félagsins og þjálfaði yngri flokka félagsins. Haddi er þeim kostur gæddur að hann gefur sig í allar æfingar. Hann er því mjög vel liðinn hjá yngri kynslóðinni. Árangurinn á vellinum var framúrskarandi og það sama má segja um Hadda sem þjálfara. Hann er metnaðarfullur og klár þjálfari.

Hannes hefur góða leiðtoga hæfileika sem hafa nýst honum vel í starfi þjálfara, sem í bland við næmni á þörfum hvers einstaklings fyrir sig, hefur skapað honum virðingu og vinsældir meðal yngstu judokappa félagsins. Á vormánuðum tók hann á sig aukna ábyrgð meðan yfirþjálfari var fjarverandi vegna annarra starfa, og sá að mestu um þjálfun yngri flokka ásamt Gylfa félaga sínum og vin.

Hannes hefur gríðarlegan metnað í sinni eigin þjálfun sem smitast yfir í þjálfarastöðu hans og leggur hann mikið uppúr aukaþjálfun og fleiru sem skilar iðkendum enn betri árangri.

Jónatan Magnússon er yfirþjálfari yngriflokka hjá KA ásamt því að stýra meistaraflokki karla. Frá því að Jónatan hóf störf hjá unglingaráði handknattleiksdeildar KA hefur iðkendum fjölgað jafnt og þétt og árangur hefur orðið meiri ár frá ári. Jónatan er einstakur þegar kemur að því að þjálfa yngstu krakkana og nær þeim á sitt band með jákvæðni og gleði.

Á tímabilinu 2021-2022 kom Jónatan meistaraflokki karla í bikarúrslitaleik Coca-cola bikarsins, í fyrsta sinn frá árinu 2004 en liðið laut lægra haldi gegn stórliði Vals í úrslitaleiknum. Liðið var einnig aðeins einu marki frá því að komast í undanúrslit Íslandsmótsins eftir þriggja leikja seríu gegn sterku liði Hauka í úrslitakeppninni. Sökum góðs árangurs KA í bikarkeppninni unnu þeir sér þátttökurétt í Evrópukeppni sem að Jónatan fór með liðið í á haustdögum 2022 þar sem liðið lék tvo gríðarlega spennandi og flotta leiki gegn Austurríska liðinu HC Fivers en þurfti að sætta sig við tap. KA teflir fram ákaflega ungu og spennandi liði þetta árið sem Jónatani hefur tekist vel að móta og að „blóðga“ unga
leikmenn sem eru að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki.

Miguel Mateo hefur þjálfað meistaraflokk kvenna í blaki undanfarin ár með afar árangursríkum hætti og var seinasta ár engin undantekning frá því. Á síðasta tímabili varð liðið Deildar-, Bikar- og Íslandsmeistarar og hampaði því öllum þeim titlum sem í boði voru það tímabilið. Liðið sýndi mikla yfirburði þrátt fyrir ýmsar áskoranir yfir tímabilið og tapaði einungis einum leik allan veturinn, ásamt því að tapa ekki hrinu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Í lok tímabilsins var Mateo valin besti þjálfari úrvalsdeildar BLÍ. Þrátt fyrir töluverðar mannabreytingar frá seinasta tímabili, þar sem reynslu miklir leikmenn hafa leitað annað og yngri og efnilegir leikmenn stigið upp, hefur Mateo enn og aftur sýnt styrk sinn sem þjálfari. Þar sem af er þessu tímabili situr meistaraflokkur kvenna í efsta sæti úrvalsdeildarinnar, ásamt því að hafa orðið Meistarar meistarana í upphafi tímabilsins.

Einnig tók Mateo að sér þjálfun meistaraflokks karla hjá KA í haust, þar sem hann teflir fram ungu og efnilegu liði í bland við reynslu meiri leikmenn og hefur liðið sýnt mikinn vöxt það sem af er vetri. Ásamt þessum glæsilega árangri með lið KA tók Mateo að sér þjálfun u-17 ára landsliðs kvenna í haust, þar sem liðið tók þátt á Norður-Evrópumóti og lenti í 3.sæti. Mateo hefur einstakt auga fyrir hæfileikum hvers og eins leikmanns og nær með því að draga fram það besta í hverjum einstaklingi. Hann er metnaðarfullur og hvetjandi þjálfari sem hefur óbilandi trú á leikmönnum sínum.

Stefán Árnason og Heimir Örn Árnason stýrðu og þjálfuðu drengina í 4. flokki karla veturinn 2021-2022 þar sem liðið vann alla þá leiki sem þeir spiluðu og vann þar af leiðandi alla þá titla sem í boði voru og stóðu uppi sem Íslands-, Bikar- og Deildarmeistarar.

Tímabilið var svo kórónað þegar þeir stýrðu liðinu að meistaratitli á Partille Cup í B16 ára flokki eftir að liðið sigraði sænska liðið Önnered 15-10 í úrslitaleik. Partille Cup er eitt allra stærasta handboltamót í heimi fyrir Yngri flokkana þar sem sterkustu lið Norðurlanda koma saman. Því er ljóst að þetta er mikið afrek hjá þjálfurunum. Það hefur verið gaman að sjá þessa þjálfara hjálpa drengjunum að verða betri handboltamenn og meiri félagsmenn. Stéfan Árnason og Heimir Örn eiga það svo sannarlega skilið að vera þjálfari ársins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is